Mannréttindadómstóll Evrópu birti í dag úrskurð sinn vegna skipunar Sig­ríðar Á. Andersen á dómurum við Lands­rétt og komst að því að með skipuninni hafi hún brotið gegn 6. grein mann­réttinda­sátt­mála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Ís­lenska ríkið er bóta­skylt vegna málsins. Kallað hefur verið eftir af­sögn Sig­ríðar.

Sjá nánar: MDE: Ríkið brotlegt vegna skipunar við Lands­rétt

Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, segir í samtali við Fréttablaðið að málið muni hafa gífurleg áhrif á réttarkerfið á Íslandi. Hann segir að það komist enginn upp með það að hunsa niðurstöðu dómstólsins. Hann spáir því þó að dómsmálaráðherra muni ekki fallast á þessa niðurstöðu og muni krefjast þess að fullskipaður dómstóll í Strassborg taki málið fyrir og endurskoði það. Það gæti tekið langan tíma því þá þurfi að flytja málið aftur, bæði skriflega og munnlega. 

Líklegt að dómarar þurfi að víkja

Hann segir að samkvæmt niðurstöðunni mega skilja sem svo að skipun fjögurra af fimmtán dómurum við Landsrétt sé í ósamræmi við lög og sambærileg ákvæði í stjórnarskrá. Hann telur að líklegt sé að þeir dómarar sem skipaðir voru með ólögmætum hætti þurfi að víkja.

„Þá er líklegt að þeir þurfi að víkja með einhverjum hætti og þá er næsta spurning, hvað með dómana sem þeir hafa kveðið upp frá því að þeir voru skipaðir dómarar í Landsrétti,“ segir Ragnar.

Lands­réttur tilkynnti eftir að úrskurður Mannréttindadómstólsins var birtur að öllum dómsmálum, sem dómararnir fjórir koma að, verði frestað út þessara viku. Samkvæmt skrifstofustjóra réttarins er verið að meta næstu skref.

Sjá einnig: Lands­réttur frestar málum út vikuna

Ragnar telur að þau séu að einhverju leyti ekki hæf til að gegna starfi dómara samkvæmt þessum úrskurði. 

„Ég efast um að þeir kveði upp dóma frá og með deginum í dag. Þeir eru auðvitað með einhverjum hætti ekki hæfir til að gegna starfinu og þá er lítil ástæða fyrir þau til að mæta í vinnuna næstu áratugina, en það þarf að finna lausn á því. Hver hún er sé ég ekki fyrir mér,“ segir Ragnar.

Þurfa þau að segja af sér?

„Það er spurning hvort ríkið er tilbúið að semja við þau um bætur, eða hvort þau segi sjálf upp, eða að stjórnvöld finni einhverja leið til að leysa málið. Það er búið að skipa þetta fólk til dómara til æviloka, til sjötugs. Við getum ekki sakað fjórmenningana sem voru skipaðir. Það er eingöngu á vegum Alþingis og dómsmálaráðherra,“ segir Ragnar.

Hvað með dómana? Geta aðrir sakborningar í málum sem þau hafa dæmt í farið sömu leið?

„Það er spurning sem mun örugglega reyna á fyrir Hæstarétti löglega hvort að þeir dómar sem þessir fjórir dómarar hafa tekið þátt í að dæma muni standa eða hvort þarf að flytja málin aftur og dæma að nýju,“ segir Ragnar.

Spurður um þann kostnað sem því fylgir segir hann að hann sé gríðarlegur. Hann segir að það hafi verið nóg að gera hjá þeim fimmtán dómurum sem voru skipaðir og ef að þeir ellefu sem eftir sitja þurfi að taka að sér málin þeirra, auk þess sem þau þyrftu að taka að sér mál sem þau hafa þegar dæmt í, þá verði það erfitt og mikið verkefni sem krefst mikil átaks.

Hann segir að með skipuninni hafi verið ákveðið að hinar pólitísku línur myndu ráða í stað þess að lögum yrði framfylgt.

„Þetta er, því miður, alveg óskaplegt fyrir framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið og dómsvaldið okkar,“ segir Ragnar.

En það er ekki hægt að hunsa þessa niðurstöðu?

„Nei, það kemst enginn upp með það, og núna þarf forsætisráðherra að taka á málinu og segja þjóðinni afstöðu sína,“ segir Ragnar að lokum.