Kelduskóli Korpu verður lagður niður og munu nemendur þar fara í aðra skóla í norðurhluta Grafarvogs. Borgarstjórn samþykkti tillöguna á borgastjórnarfundi í dag með tólf atkvæðum gegn ellefu.

Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkur Íslands, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins fóru fram á frestun en sú tillaga var felld. Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði daginn svartan dag í skólastarfi Grafarvogs.

Nemendur Kelduskóla og foreldrar þeirra voru viðstaddir fundinn en þau hafa barist fyrir því að fá að halda skólanum opnum. Sævar Reykjalín, formaður foreldrafélags Kelduskóla, hefur sagt reynslu þeirra við samráðshóp vera sú að hvorki sé hlustað á foreldra né börn.

Frá og með haustinu 2020 verður Kelduskóla Korpu lokað. Þríar skólar verða áfram starfræktir; Borgarskóli og Engjaskóli fyrir börn í 1.-7. bekk og Víkurskóli fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Þetta þýðir á margir nemendur munu þurfa að fara talsvert úr leið til að komast í grunnskóla sinn.

Sam­göngu­bætur verða tryggðar til að bæta um­ferðar­öryggi gangandi og hjólandi veg­far­enda og til að bæta tengingu milli hverfa.

„Í þessu máli er farið ódýrustu og lélegustu leiðina, eins og alltaf þegar borgin á í hlut. Ekkert verður gert varðandi samgöngubætur í líkingu við undirgöng eins og lofað hefur verið. Skólabúnaður verður ekki endurnýjaður, eins og þarf að gera fyrir þennan unglingaskóla. Auk þess er hugtakið nýsköpunarskóli algjörlega óskilgreint í þessu samhengi,“ sagði Sævar í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku.