Forkólfar Reykjavíkurborgar hafa skipað dómnefnd í opinni alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands, sem Reykjavíkurborg og Betri samgöngur standa í sameiningu að, en undirbúningur að uppbyggingu svæðisins hefur staðið yfir frá 2021.

Samkvæmt tilkynningu frá borginni eru þau Brent Toderian og Maria Vassilakou á meðal dómnefndarmanna, en þau hafi sett sitt mark á Vankúver og Vínarborg, sem séu iðulega tilnefndar í hópi lífvænlegustu borga í heimi.

„Þetta er bara mjög spennandi,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og formaður dómnefndarinnar, en fengur sé að því að fá þekkta og öfluga sérfræðinga í dómnefndina sem muni auka áhuga á samkeppninni. „Hugsunin er að byggja nýtt borgarhverfi í samræmi við grænar áherslur framtíðarinnar,“ bætir hann við.

Samkeppnin um þróun Keldnaholts er ein sú stærsta sem ráðist hefur verið í hér á landi en með henni er verið að fara nýjar leiðir við að þróa byggð í borginni, eins og segir í tilkynningu borgaryfirvalda.

„Í stað þess að kalla eftir hönnunarlausnum sem sýna ítarlegt heildarskipulag fyrir allt svæðið, þar sem allt er leitt til lykta, er leitast við að fá fram ramma um megin innviði, svo sem Borgarlínu og græn svæði og raunhæfa áætlun um þróun og uppbyggingu svæðisins og lykilhönnunarviðmið,“ segir þar.

Lögð sé áhersla á að uppbygging svæðisins byggi á skynsamlegri áfangaskiptingu og fjölbreytni byggðarinnar verði tryggð með fjölmörgum smærri skipulagsreitum. Markmiðið sé þannig að deiliskipuleggja og byggja þetta stóra hverfi í mörgum smærri áföngum.

Auk Dags, Brents og Mariu eru í dómnefndinni Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi, Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri skipulagssviðs, og Davíð Þorláksson, Guðrún Ögmundsdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson hjá Betri samgöngum.