Isavia vinnur nú að því að breyta Keflavíkurflug­velli með þeim hætti að far­þegar sem koma frá öruggum ríkjum komi inn á flugvöllinn á öðrum stað en þeir sem þurfa að fara í skimun.

Sótt­varna­læknir til­kynnti í dag að far­þegar sem hafa verið í 14 daga eða lengur í Dan­mörku, Noregi, Finn­landi og Þýska­landi þurfa ekki að fara í skimun eða sótt­kví. Þessi á­kvörðun kallar á til­færingar og breytingar á Kefla­víkur­flug­velli en þær verða til­búnar á fimmtu­dags­morgun.

„Það er gengið út frá því að flestir far­þegar um borð í flug­vélum frá Kaup­manna­höfn, Osló eða þýsku borgunum þurfi ekki að fara í skimun,“ sagði Páll Þór­halls­son, verk­efnis­stjóri í for­sætis­ráðu­neytinu, á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

Hann sagði að auð­vitað gætu verið far­þegar í þessum vélum sem hafa ekki verið í um­ræddum löndum í 14 daga og þurfa þeir þá að fara inn á skimunar­svæðið.

Farþegar Norrænu skimaðir í Danmörku

Sýnataka fyrir farþega sem koma til landsins með Norrænu var einnig breytt í dag. Far­þegar ferjunnar voru skimaðir fyrir brott­för í Dan­mörku.

„Þá er búið að af­greiða þessa sýna­töku sem­sagt áður og síðan þurfum við að skoða hvaða á­hrif þessar nýju reglur munu hafa í næstu viku,“ sagði Páll.

Á morgun taka í gildi nýjar reglur dóms­mála­ráð­herra um um komur til landsins frá ríkjum utan EES og EFTA-ríkjanna. Um er að ræða fjór­tán ríki sem Evrópu­sam­bands­löndin og Ís­land hafa komið sé saman um að megi ferðast til Evrópu og Ís­lands. Mun þetta vera lönd eins og Kanada og Nýja Sjá­land en allir far­þegar sem hafa fasta bú­setu í þeim löndum þurfa hins vegar að fara í skimun eða sótt­kví.