Kawasaki mótorhjólaframleiðandinn ætlar sér greinilega að vera í fararbroddi þegar kemur að rafvæðingu mótorhjóla. Í skjali um framtíðaráætlanir Kawasaki kemur fram að ætlunin er að öll framleiðsla þeirra verði orðin rafvædd árið 2035.

Einnig hefur framleiðandinn látið hafa eftir sér að tíu ný rafhjól verði kynnt fyrir 2025. Hvaða hjól það verða hefur ekki verið tilkynnt ennþá en getgátur eru uppi um að allavega tvö þeirra verði torfæruhjól.

Nær öruggt má telja að einhver þeirra verði tvinnhjól, og þá bæði búin bensínmótor og rafmótor.

Kawasaki sýndi tilraunarafhjól á EICMA mótorhjólasýningunni 2019 en það vakti ekki mikla lukku þá, enda þótti það kraftlaust miðað við samkeppnina.

Þrátt fyrir það hafa komið upplýsingar síðan sem gefa tilefni til þess að ætla að Kawasaki sé full alvara, eins og sú staðreynd að Kawasaki hefur þróað rafdrifið mótorhjól með gírkassa.

Eflaust verður forvitnilegt að fylgjast með fréttatilkynningum frá Kawasaki á næstunni.