Kjördagur hjá þessari litlu fjölskyldu var með óvenjulegum hætti en þau eru öll í sóttkví og þurftu að fara í bílalúgu til að greiða atkvæði. Þar átti að skrifa skrifa atkvæðið á blað og sýna starfsmanninum í gegnum bílrúðuna.
Ágúst Arnar Þráinsson og María Dögg Rafnsdóttir búa ásamt syni sínum, Benjamín Hróa, á Ásbrú en eru með lögheimili í Hafnarfirði. Venjulega væri hægt að kjósa í því kjördæmi sem einstaklingur er búsettur en þá þarf kjósandinn sjálfur að koma atkvæðinu á réttan stað og það var ekki í boði fyrir þau.
„Við allavega túlkuðum reglurnar þannig að við sáum enga betri leið að þessu en að fara tvær ferðir úr Keflavík og niður á Skarfabakka,“ segir Ágúst en þar sem einstaklingar í sóttkví mega ekki fara inn neins staðar þá þótti þetta öruggara í sitthvoru lagi, ef til dæmis vont veður skyldu skella á.
Ágúst segir það hafa verið áhugaverða upplifun að kjósa í bílalúgunni. „Það var mjög skemmtilegt. Ég var skeptískur á þetta til að byrja með en fólkið þarna var mjög faglegt og flott þannig að maður var öruggur með atkvæðið sitt.“
Hann segist enn fremur vera ánægður með hversu sýnilegt ferlið virtist vera. Þá fannst honum sumt aðeins loðnara. Til dæmis er mælt með því að koma með blað og penna á kjörstaðinn. „Ég veit ekki ef maður hefði gleymt því hvort maður hefði fengið að anda á rúðuna og kjósa þannig eða eitthvað,“ segir Ágúst.
Hann ákvað þó að prófa sjálfur að koma með spjaldtölvu frekar en blað og penna. Tekið var á móti atkvæðinu þannig og starfsmaðurinn gantaðist með það að hann hafi kosið rafrænt. „Ætli ég hafi ekki verið fyrstur?“