Sótt­varna­mið­stöð Evrópu, ECDC, hefur nú upp­fært á­hættu­mat sitt um stöðu CO­VID-19 í Evrópu en kortið er upp­fært viku­lega með tölum um 14 daga ný­gengni smita.

Staðan versnar á nokkrum stöðum milli vikna, til að mynda í Dan­mörku, þar sem Mið- og Norður Jót­land og Sjá­land eru orðin ­gul en voru áður græn. RÚV greindi fyrst frá.

Þá er Kaup­manna­höfn nú rautt svæði á korti ECDC en það var gult í síðasta korti. Tölu­verður fjöldi smita hefur verið að greinast undan­farið í Dan­mörku en rúm­lega 1140 manns greindust með veiruna þar í gær. Þrjá daga í röð hefur fjöldi smita verið yfir þúsund en var í kringum 600 fyrir viku.

Önnur lönd þar sem staðan hefur versnað og eru nú rauð eru Portúgal, Holland, Spánn, Lúxem­borg, Kýpur, Malta og hluti Grikk­lands, á meðan lönd á borð við Ír­land, Frakk­land, Belgíu og Finn­land eru nú flokkuð sem gul svæði. Að­eins um fjórðungur landa innan Evrópu eru ekki að horfa fram á aukningu.

Delta veldur áhyggjum

Far­aldurinn er nú í miklum vexti víða er­lendis, ekki síst vegna Delta-af­brigðis veirunnar, sem varð fyrst vart á Ind­landi, sem er talið tölu­vert meira smitandi og bólu­efni veita minni vörn gegn. Þó nokkur lönd hafa gripið til hertra að­gerða í ljósi þessa og hafa lönd á borð við Frakk­land lagt aukna á­herslu á bólu­setningu.

Frá upp­hafi far­aldursins hafa rúm­lega 188,5 milljón til­felli smits verið stað­fest í heiminum og rúm­lega fjórar milljónir manna látist. Bólu­setningum vindur mis­hratt á­fram víða en í heildina hafa rúm­lega 3,5 milljarðar skammta af bólu­efni verið gefnir í heiminum.

Flestar þjóðir líta nú á bólu­setningu sem einu leiðina út úr far­aldrinum en Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin hefur varað þjóðir við að af­létta tak­mörkunum of hratt.