Ég var oft í Góða hirðinum að fletta gömlum vínylplötum. Þegar ég var þrettán var ég að kaupa eitthvert alls konar bull á 300 krónur og hlusta – oft á rispaðar plötur,“ segir söngkonan Bríet Ísis Elfar en hún gaf út plötuna Kveðja, Bríet fyrir skömmu og rignir yfir hana fyrirspurnum um hvenær platan komi út á vínylformi.

„Það er eitthvað fallegt við þessa athöfn að setja plötu á fóninn og hlusta,“ segir Bríet. Aldrei hafi neitt annað komið til greina en að gefa plötuna út á vínyl. Hún hafi alist upp við þá athöfn að setja plötu á fóninn og hlusta.

Vínylplatan hljómar vel - þó það sé vísindalega sannað að hún hljómi ekki betur.

Töluverður áhugi á vínylplötum

Áhugi landsmanna á vínylplötum hefur verið töluverður undanfarin misseri og varla sú plata gefin út lengur nema hún komi á vínyl.

Snæbjörn Ragnarsson, einn af umsjónarmönnum hlaðvarpsins Bestu plötunnar, segir að það að hlusta á plötu á vínyl sé allt annað en að hlusta á stafrænt á Spotify. Hann segir það séu nokkrar týpur sem hlusti á vínyl.

„Það er annars vegar sá sem heldur að hann sé merkilegri af því hann hlustar á vínyl. Svo er það hins vegar fólkið með ranghugmyndirnar sem segja að hljóðið sé hvergi betra – sem er vísindalega sannað að er kjaftæði. Allur toppur og botn nær ekkert í vínylformið og þetta hlýja sánd þýðir einfaldlega að toppurinn er ekki með,“ segir Snæbjörn. Síðan sé það fólk eins og hann sjálfur – sem sé blanda af nördisma og því að hafa alist upp með vínylnum.

„Það er athöfn að setja vínylplötu á fóninn. Byrja á lagi númer eitt og enda á lagi númer tíu,“ útskýrir Snæbjörn.

Snæbjörn Ragnarsson, einn af umsjónarmönnum hlaðvarpsins Bestu plötunnar
Mynd/Aðsend

Platan staðfesting á útgáfu

Bríet segir að platan sé staðfesting á því að listaverkið hennar sé komið út og geti gefið meiri innsýn í listamanninn. „Að halda á vínyl er eitthvað aðeins persónulegra. Að heyra snarkið og sitja og hlusta er annað en að hlusta á Spotify og gleyma tónlistinni á bak við. Vínyll er keyptur af ástæðu,“ segir hún.

Snæbjörn bendir á að enginn verði ríkur á að gefa út á vínyl. „Það er enginn að gefa út vínylupplag af því eftirspurnin er svo yfirþyrmandi,“ segir hann. Það breyti því þó ekki að fólk hafi áhuga. „Fyrir okkur sem hlustum og gefum út tónlist þá verður maður að hafa eitthvað í höndunum. Tölvuskjárinn og heddfónarnir koma ekki í staðinn fyrir það.“