Róbert Wessmann, eigandi lyfjafyrirtækisins Alvogen, keypti nýlega í gegn um félagið Hrjáf ehf. á fjórða tug nýbyggðra íbúða í Reykjavík og greiddi rúmar 1.800 milljónir króna fyrir.

Íbúðirnar eru flestar í nýlegu hverfi við Ríkisútvarpið í Efstaleiti auk íbúða í miðbænum. Hluti af kaupverðinu þar var greiddur með einni dýrustu íbúð landsins.

Fyrirtækið Hrjáf ehf. hefur verið umsvifamikið á fasteignamarkaði undanfarnar vikur. Auðmaðurinn Vilhelm Róbert Wessmann er eigandi fyrirtækisins í gegn um félag sitt Aztiq fjárfestingar ehf. Í lok nóvember var gengið frá kaupsamningi á sex íbúðum í fasteignum við Frakkastíg 8C og 8D sem og Hverfisgötu 58A. Kaupverðið var 308 milljónir króna. Fyrir átti Hrjáf fimmtán íbúðir í sömu húsum við Frakkastíg.

Í byrjun desember keypti Hrjáf síðan 31 íbúð í nýbyggingum á svokölluðum A-reit á lóð Ríkisútvarpsins í Efstaleiti. Umræddar íbúðir eru í húsum við Lágaleiti 1-9, Efstaleiti 19-27 og Jaðarleiti 2. Íbúðirnar eru af öllum stærðum og gerðum. Sú minnsta er um 50 fermetrar en sú stærsta 120 fermetrar.

Lágaleiti 1 til 9.jpg

Af 31 íbúð sem Hrjáf ehf. keypti á RÚV-reitnum eru 23 íbúðir í Lágaleiti 1 til 9. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Kaupverð íbúðanna sem Hrjáf ehf. keypti er 1.511 milljónir króna. Var það greitt með þeim hætti að 1.050 milljónir króna voru fengnar að láni frá lánastofnun og upphæðinni síðan skipt þannig að einu skuldabréfi var þinglýst á hverja íbúð.

Athygli vekur að afgangur kaupverðsins, um 460 milljónir króna, var greiddur með makaskiptum á lúxusíbúð við Vatnsstíg 20-22. Þar hefur Róbert haldið heimili undanfarin ár. Miðað við verðið er líklega um að ræða eina dýrustu íbúð landsins.

Þar með eru langflestar ef ekki allar íbúðirnar á hinum fullbyggða A-reit seldar. Flestar eru í eigu einstaklinga en þó nokkrar hafa Félagsbústaðir í Reykjavík keypt fyrir sína skjólstæðinga. Þá eignaðist Kennarasamband Íslands eina blokk með tíu íbúðum í Vörðuleiti í nóvember.

Vatnsstígur 20 og 22.jpg

Vatnsstígur 20 og 22. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur sumum eigendum annarra íbúða á A-reitnum verið sagt að íbúðir Hrjáfs ehf. við Ríkisútvarpið verði leigðar út til starfsmanna Alvogen og þá fyrst og fremst til útlendinga hjá fyrirtækinu hér á landi.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri Alvogen, segir þetta hins vegar ekki vera rétt.

„Ég þekki ekki kaup þessa félags og Alvogen mun ekki nýta þessar íbúðir,“ segir Halldór.