Ríkisstjórnin hefur samþykkt að kaupa nýtt varðskip í stað Týs en nýlega kom í ljós alvarleg bilun í varðskipinu sem Fréttablaðið greindi frá á þriðjudaginn.

Á blaðamannafundi sem haldinn var um borð í skipinu í dag tilkynnti dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, að nýja skipið muni líklega fá nafnið Freyja en að Landhelgisgæslan hafi þó síðasta orðið.

Þá sagði hún einnig frá því að reynt hafi verið að fá varahluti í Tý úr varðskipinu Ægi en að við nánari skoðun hafi sama bilun verið þar. Þá kom einnig í ljós að skemmdir voru í Tý sem ógnar öryggi skipsins og áhafnar. Kostnaður við að gera við skipið er metinn á 100 milljónir króna.

Fram kom í máli ráðherra að staða á mörkuðum fyrir kaup á nýlegu skipi er góð um þessar mundir og að hægt sé að fá skip sem henta vel til að sinna verkefnum Landhelgisgæslunnar en þau eru sem dæmi að vera með mikla dráttargetu, góða stjórnhæfni, gott dekkpláss og fullkominn slökkvibúnað. Þá kom fram að nýju skipin séu mjög vel útbúin til björgunarstarfa og að þau séu um umhverfisvænni en eldri skip.

Þá, í ljósi þess hve brýnt málið er, hefur ríkisstjórnin samþykkt að strax verði hafist handa við að kaupa nýtt skip í því skyni að tryggja öryggi landsmanna til hliðar við varðskipið Þór.

„Ekki er unnt að halda uppi viðeigandi öryggisstigi með aðeins einu varðskipi þótt öflugt sé og því lagði ég til og ríkisstjórnin samþykkti að hefjast þegar handa við kaup á nýju skipti sem mun koma í stað varðskipsins Týs sem hefur þjónað landsmönnum með glæsibrag í um hálfa öld,“ segir Áslaug Arna, ráðherra.

Kröfur nútímans aðrar

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar fagnar þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

„Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar er stigið mikilvægt framfaraskref í björgunarmálum þjóðarinnar. Við hjá Landhelgisgæslunni fögnum því að stjórnvöld hafi brugðist hratt og örugglega við þeirri stöðu sem upp kom. Varðskipið Týr á sér glæsta sögu og hefur þjónað þjóðinni og Landhelgisgæslunni afar vel í áranna rás. Öllu er afmörkuð stund og allt á sér sinn tíma,“ segir Georg.

Hann segir að kröfur nútímans séu aðrar og meiri en þær sem voru fyrir um hálfri öld þegar Týr var keyptur.

„Samþykkt tillögunnar markar tímamót fyrir sjófarendur og íslensku þjóðina,“ segir Georg.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 14:05 og klukkan 14:09.