Íbúar í húsnæði við Hafnargötu á Seyðisfirði hafa óskað eftir því við sveitarfélagið Múlaþing, með vísan til laga um varnir gegn snjóflóðum, að það festi kaup á húsnæði þeirra sem staðsett er innan rýmingarsvæðis sem skilgreint hefur verið vegna ofanflóðahættu.

Húsið er á rýmingarsvæðinu þar sem rýma hefur þurft í þrígang á aðeins tveimur mánuðum vegna ofanflóðahættu. Eigendurnir treysta sér ekki til að búa í húsinu við núverandi aðstæður. Múlaþing hafnar hins vegar að kaupa húsið. Á fundi byggðarráðs var vísað til þess að búseta í því væri heimil.

„Leiði hins vegar endurskoðað hættumat til þess að ekki verði heimilað að hafa varanlega búsetu í umræddri húseign mun málið verða tekið til endurskoðunar,“ segir í fundargerð samþykktri af öllum fulltrúum.

Búist er við nýju hættumati í vor eða sumar eftir að rannsóknum Veðurstofunnar er lokið. Þær hófust eftir aurskriðurnar miklu í desember. Þegar hefur búseta verið bönnuð í fjórum húsum og vinna við uppkaup á þeim hafin.