Fyrir­huguð kaup ríkisins á rösk­lega sex þúsund fer­metra skrif­stofu­rými í norður­húsi nýja Lands­bankans við Austur­höfn munu vera komin í strand.

Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins, en ráð­gert var að utan­ríkis­ráðu­neytið myndi flytja að stærstum hluta starf­semi sína í húsið og jafn­vel annað minna ráðu­neyti.

Málið er á hendi for­sætis­ráðu­neytisins og fjár­mála­ráðu­neytisins, en ó­eining mun vera á milli þeirra um kaupin. Lands­bankinn mun ekki vera með önnur kaup­til­boð í hús­næðið sem er ríf­lega þriðjungur af flatar­máli nýju byggingarinnar.

Ráðu­neytin vinna í sam­einingu að fram­tíðar­skipan hús­næðis­mála Stjórnar­ráðsins og er mark­miðið að starf­semi þess verði komið fyrir í sveigjan­legu og nú­tíma­legu hús­næði í námunda við hvert annað til að skapa tæki­færi til sam­nýtingar, sam­starfs og hag­ræðingar.

Í því efni hefur verið horft til þess að minnka hús­næði ráðu­neytanna um tíu af hundraði, en eignir Stjórnar­ráðsins á svo­kölluðum Stjórnar­ráðs­reit við Skúla­götu, Sölv­hóls­götu, Lindar­götu, Lækjar­götu og fyrir­huguð eign við Austur­bakka eru sam­tals 27 þúsund fer­metrar – og eiga, sam­kvæmt út­tekt fyrr­greindra ráðu­neyta, að geta auð­veld­lega rúmað starf­semi allra ráðu­neyta Ís­lands, auk Um­bru, þjónustu­mið­stöðvar Stjórnar­ráðsins.

En nú eru um sex þúsund af þessum fer­metrum í upp­námi og ó­víst að af samningum við Lands­bankann verði, en rétt er að taka fram að hann er í 98 prósenta eigu ríkisins.

Lilja Björk Einars­dóttir, banka­stjóri Lands­bankans, vildi ekki tjá sig um samninga­við­ræður við ríkið um kaup á um­ræddu norður­húsi.