Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra segir það hafa komið sér í opna skjöldu að pabbi hans, Bene­dikt Sveins­son, hafði keypt hlut í Ís­lands­banka í út­boðinu 22. mars. „Ég fæ listann fyrst í gær og það er í fyrsta sinn sem ég sé hverjum hefur verið út­hlutað í kaupunum,“ segir Bjarni í við­tali í Bítinu á Bylgjunni. Hann segist ekki hafa haft hug­mynd um kaupin.

Að sögn Bjarna hefur hann lengi óskað þess að vera ekki of mikið inn í því sem pabbi hans er að gera. Þá hafi hann ekki tekið á­kvörðun um út­hlutun og ekki valið kaup­endur í út­boðinu. „Ég skil vel að það kalli á skýringar og fólk vill vita hvernig þetta getur gerst og það er bara sjálf­sagt að svara því og að ég tel að það standist mjög vel skoðun,“ segir Bjarni.

Að­spurður hvort það hann hefði óskað þess að Bene­dikt hafði ekki tekið þátt í út­boðinu segir Bjarni „Ég ætla ekkert að neita því að það hefði verið á margan hátt heppi­legra fyrir mig per­sónu­lega, en þetta á ekkert að snúast um mig.“

Mikil­vægast segir Bjarni er að sömu reglur gildi um alla. „Við setjum reglurnar og síðan koma til­boð inn, þeir sem eru að bjóða verð sem nær við­miði fengu að taka þátt ef þeir voru hæfir,“ segir Bjarni.

Fjölbreytt eignarhald mikilvægt

Bjarni nefnir einnig gagn­rýni sem hefur heyrst um að einka­fjár­festar séu of fyrir­ferða­miklir í út­boðinu. Hann segir mikil­vægt að einka­fjár­festar vegi upp á móti líf­eyris­sjóðum í eignar­haldi á bönkunum.

„Við verðum að­eins að passa okkur á því að óska þess eins að líf­eyris­sjóðir eignist allt,“ segir Bjarni en sam­kvæmt honum hefur sam­keppnis­eftir­litið vakið at­hygli á því að líf­eyris­sjóðirnir, sem margir hverjir eiga fyrir­tæki á sam­keppnis­markaði, væru ráðandi hlut­hafar í öllum bönkum.

„Þess vegna held ég að það hafi verið skyn­sam­legt að laða að hæfa fjár­festa og fá einka­fjár­magnið inn,“ segir Bjarni og bætir við að er­lendir fjár­festar, sem voru nokkrir í sölunni á Ís­lands­banka, tryggi einnig fjöl­breytt eignar­hald.

Krist­rún Frosta­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, sagði í að­sendri grein á Vísi að traustið á sölu Ís­lands­banka sé horfið og að ein­hver þurfi að bera á­byrgð á því. Hún segir mikil­vægt að út­boðið verði rann­sakað. Bjarni svarar þessu í Bítinu. „Endi­lega rann­saka þetta allt í bak og fyrir,“ segir hann.

Heildarsalan á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka færði ríkinu 52,7 milljarða króna. Ákveðið var að miða við gengið 117 krónur á hlut þó að verð hvers hluta í Kauphöllinni væri þá 123 krónur. Síðan þá hefur gengið hækkað umtalsvert og var í lok dags í gær 129 krónur á hlut sem er ríflega tíu prósenta hækkun frá sölunni fyrir rúmum tveimur vikum. Hlutur þeirra sem keyptu þá hefur þannig alls hækkað um 5.300 milljónir króna