Íslensk stjórnvöld eiga í formlegum samningaviðræðum um kaup á Bændahöllinni fyrir hönd Háskóla Íslands (HÍ). Í fjárlagafrumvarpi ársins 2022 er lagt til að heimild verði veitt til mögulegra kaupa á húsinu af Bændasamtökunum.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, segir að ef kaupin ganga eftir muni háskólinn fá ríflega 70 prósent af húsnæðinu undir starfsemi Menntavísindasviðs og Félagsstofnun stúdenta fá tæplega 30 prósent þess undir stúdentaíbúðir.

„Áætlaður heildarkostnaður í kaupverði og endurbótum á hlut HÍ er um 6,5 milljarðar sem gerir kaupin að álitlegum kosti fyrir stjórnvöld og HÍ,“ segir Jón Atli í skriflegu svari.

Fyrirhuguð kaup eru þó þeim skilyrðum háð að háskólinn mun þurfa að láta af hendi fleiri fermetra en hann fær því skólinn mun láta húsnæði sitt í Stakkahlíð, Skipholti og á Neshaga ganga upp í kaupin. Heildarstærð húsnæðisins í Bændahöllinni er um 12.000 fermetrar en stærð húsnæðisins sem háskólinn þarf að láta af hendi er 14.800 fermetrar.

„Gert er ráð fyrir að þegar upp er staðið sé verðmæti þessara fasteigna svipað og kaupverð á hluta HÍ í Hótel Sögu auk kostnaðar vegna endurbóta/breytinga á húsnæðinu,“ segir Jón Atli og bætir við að staðsetningin sé einkar heppileg fyrir bæði HÍ og Félagsstofnun stúdenta.

Jón Atli segir að fyrirhuguð yfirtaka háskólans á Hótel Sögu muni ekki krefjast mikilla breytinga á ásýnd hússins. „Nei, það mun ekki þurfa að gera miklar breytingar í heildina. Lögð verður áhersla á að virða skoðun handhafa höfundarréttar hússins og yfirhöfuð taka tillit til sögu þess,“ segir hann.

Nokkur fyrirtæki og stofnanir eru í dag með rekstur í Bændahöllinni, þar með talin Bændasamtökin, Pósturinn og Hið íslenska bókmenntafélag. Að sögn Jóns Atla er gert ráð fyrir að þjónusta verði áfram í húsinu á vegum rekstraraðila og farið verði yfir þá samninga með aðilunum.