Snorri Ásmundsson, listamaður og oddviti Kattaframboðsins á Akureyri, er harðorður í garð þeirra bæjarfulltrúa sem samþykktu bann við lausagöngu katta í nóvember síðastliðnum og vill þá úr stjórnmálum. Hann er bjartsýnn á góðan árangur í sveitarstjórnarkosningunum í maí.

„Þarna eru sjö manns sem eiga ekkert heima í pólitík,“ segir Snorri. Hann telur 45 prósent bæjarbúa mjög á móti þessari ákvörðun.

„Ég held að við náum fleiri en tveimur mönnum inn. Væntingar mínar eru að við verðum stærsti flokkurinn í bæjarstjórn.“

Á Akureyri er enginn meiri- eða minnihluti heldur starfa allir ellefu bæjarfulltrúarnir saman. Eva Hrund Einarsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillöguna sem var samþykkt af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Miðflokksins og öðrum fulltrúa L-listans.

Hinn fulltrúi L-listans, ásamt fulltrúum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, var á móti banninu sem hefur verið harðlega gagnrýnt, meðal annars af Dýralæknafélagi Íslands.

Snorri segir fólkið á lista Kattaframboðsins óvant í stjórnmálum og vera enn að móta sína stefnu en listinn, sem fékk bókstafinn K, var kynntur á þriðjudag. Þau sitja í umboði katta sinna, meðal annars Snúbba, Pjakks, Pusegutts og Mollýj­ar Mjáfjörð.

„Kötturinn fer sínar eigin leiðir og við erum opin fyrir því að mæta því sem á vegi okkar verður,“ segir Snorri. Engin stefna hafi verið ákveðin önnur en sú að vinna fyrir náttúruna og gegn dýraníði.

Hann segir lausagöngubannið hafa verið kveikjuna að framboðinu en það verði ekki lagt niður náist að fá banninu hnekkt. Tilgangurinn verði áfram að vernda dýrin.

Snorri segir framboðinu hafa verið mjög vel tekið. Enn sé ekki ljóst nákvæmlega hvernig baráttu framboðsins verði háttað en fólkið á listanum sé nú að skipta með sér verkum. Snorri útilokar ekki u-beygjur í þeim efnum, líkt og kettirnir taka.

„Kettir hafa verið dáðir og dýrkaðir í mörg þúsund ár, alveg síðan á tímum Forn-Egypta. Ég lít svo á að við mannfólkið séum aðeins þjónustufólk fyrir ketti,“ segir Snorri.

Dýravernd er aðeins lítill hluti af skyldum sveitarfélaga. Spurður hvernig framboðið hyggist taka á skipulagsmálum, skólamálum, félagsmálum og fleiru í þeim dúr segir Snorri stjórnmálamenn ofmetna í þeim efnum.

„Ég trúi á embættismannakerfið,“ segir Snorri.

„Embættismannakerfið heldur öllu gangandi. Stjórnmálamenn eiga að hafa sem minnst afskipti.“

Bendir hann á að Belgar hafi verið án ríkisstjórnar í nærri tvö ár, árin 2010 og 2011, og allt hafi gengið eins og í sögu.

Aðeins þegar breyta eigi hlutum þurfi stjórnmálamenn að koma að og þeir séu yfirleitt til trafala