Kári Stefáns­son fer hörðum orðum um lög um vandaða starfs­hætti í vísindum sem sam­þykkt voru á Al­þingi í sumar, í skoðana­grein sem birtist í Frétta­blaðinu í dag. Hann veltir því upp að kannski sé það í lagi að sið­fræðingur hafi for­sætis­ráð­herra að fífli og vísar hann þar til Vil­hjálms Árna­sonar, sið­fræðings.

„Ég hef það fyrir satt að hug­myndin að lögunum eigi rætur sínar hjá sið­fræðingnum í nefndinni sem er Vil­hjálmur Árna­son sem Katrín Jakobs­dóttir skipaði á sínum tíma sem sér­stakan ráð­gjafa sinn,“ skrifar Kári meðal annars.

Hann bendir á að frum­varpið, sem sam­þykkt var þann 24. júní síðast­liðinn, hafi verið sam­þykkt án þess að fyrir liggi skil­greining á því hvað séu vönduð vinnu­brögð í vísindum. „Síðan ég frétti af laga­setningunni hef ég spurt um það bil 50 vísinda­menn og konur hvað átt sé við með vönduðum vinnu­brögðum í vísindum og enginn átti svar.“

Enginn unnið við vísindi í nefnd for­sætis­ráð­herra

Þá segir Kári að setning laganna hafi hafist með því að Katrín hafi skipað þriggja manna nefnd til að undir­búa laga­smíðina. Hann segir að enginn í henni hafi unnið við vísindi, „eða hefur þann feril að það sé á­stæða til þess að ætla að hafi minnstu hug­mynd um vinnu­brögð í vísindum, hvað það er sem gerir þau vönduð eða vond.“

Þegar þar er komið við sögu í pistli Kára segir hann að hug­myndina með lögunum sé komin frá Vil­hjálmi. „Vil­hjálmur hefur um ára­bil tjáð þá skoðun sína að vísindin eigi að hreyfa sig hægt vegna þess að það sé svo erfitt fyrir fólk að takast á við nýja þekkingu ef hana beri hratt að.“

Þetta er Kári ekki til­búinn til að fallast á og segir hann upp­götvanir sem slíkar aldrei gerðar hægt. „Heldur eru þær ein­fald­lega allt í einu komnar og þekkingin nýja gerir aldrei annað en að auka skilning á þeim heimi sem við búum í eða býr í okkur. Það er líka ein­kenni raun­veru­legra upp­götvana að það er oftast með öllu ó­mögu­legt að spá fyrir um hverjar þær verði og þess vegna ekki hægt að að­lagast þeim fyrr en þær eru orðnar.“

Tvennt furðu­legt

Þá nefnir Kári það næst að sam­kvæmt lögunum verði sett á lag­girnar sjö manna nefnd, skipuð lög­fræðingum, sið­fræðingum „ og ein­hverjum full­trúum vísinda og síðan sjö vara­mönnum.“ Þá verði nefndin með ein­stak­ling í fullu starfi.

„Hún á að gera tvennt. Hún á að leita að al­þjóð­legum við­miðunum um vönduð vinnu­brögð í vísindum sem eru ekki til þannig að ekki verður við nefndina að sakast þegar hún finnur þau ekki. Síðan er nefndinni ætlað að fjalla um þau til­vik þegar á­litið er að eitt­hvað ó­sæmi­legt hafi átt sér stað í vísindum á Ís­landi, menn hafi platað, stolið, svikið, prettað.“

Kári segir tvennt við verk­efni nefndarinnar sé furðu­legt. Þannig þurfi þekkingu á smá­at­riðum þeirra vísinda sem um ræðir hverju sinni til þess að geta á­kvarðað hvort eitt­hvað mis­jafnt hafi átt sér stað. „Þannig að á bestu bæjum setja menn saman sér­staka nefnd um hvert mál sem upp kemur í stað þess að ætla sama hópi lög­fræðinga og sið­fræðinga að leysa öll slík mál.“

„Í annan stað eru mál af þessari gerð brotin til mergjar til þess að gera eitt­hvað í þeim, sjá til þess að vísinda­maður sem hefur gerst upp­vís að ó­heiðar­leika sé rekinn frá há­skóla, fái ekki styrki eða glati réttinum til þess að leið­beina nem­endum. Sam­kvæmt lögunum hefur nefndin fyrir­hugaða engin slík úr­ræði.“

Í lok pistilsins segir Kári að lög Katrínar um vönduð vinnu­brögð virðist úr fjar­lægð til þess fallin að hysja upp á æðra plan. „En þegar betur er að gáð gera þau ekkert nema kannski að sólunda tíma og fé og láta hæst­virtan for­sætis­ráð­herra líta út eins og henni sé sama um allt annað en inni­halds­laust þvaður.“