Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist geta tekið undir með Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), að undirbúningur sérstakrar faraldsfræðistofnunnar þurfi að ganga hraðar fyrir sig.

Slík framkvæmd taki hins vegar alltaf ákveðinn tíma og að ríkisstjórnin muni leggja sig fram við að „unnið verði eins hratt og örugglega framast er kostur.“

Þetta skrifar Katrín í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún bregst við opnu bréfi frá Kára sem birt var fyrr í dag.

Í bréfinu sem beint var til forsætisráðherra lýsti Kári megnri óánægju sinni með viðbrögð hennar við tillögum hans þess efnis að slíkri stofnun yrði komið á fót til að byggja upp þekkingu og reynslu til að takast á við faraldra framtíðarinnar.

Ætli að hætta aðkomu að landamæraskimun

Þá gaf hann út að ÍE ætli að hætta aðkomu sinni að landamæraskimun stjórnvalda eftir 13. júlí næstkomandi. Aðkoma fyrirtækisins hafi ávallt átt að vera tímabundin ráðstöfun og starfsfólk þess þurfi að snúa sér að öðrum verkefnum.

Í sömu andrá sagðist Kári ætla að hætta öllum samskiptum við sóttvarnalækni og landlækni í tengslum við COVID-19 frá og með deginum í dag.

Fram kom í skýrslu verkefnisstjórnar um undirbúning landamæraskimunar að Landspítalinn geti einungis skimað um 500 sýni á dag eins og sakir standa. Til samanburðar var 1.941 sýni rannsakað við landamæraskimun í gær.

Katrín kemur lítið inn á landamæraskimunina í færslu sinni en segist vonast til þess að stjórnvöld muni áfram geta leitað til starfsfólks ÍE.

Framlag fyrirtækisins í baráttunni við COVID-19 fram að þessu hafi verið ómetanlegt og seint fullþakkað.

Vonast til að finna lausn

„Vegna þess hversu miklu þessi samvinna heilbrigðisyfirvalda og ÍE skiptir fyrir almannaheill vonast ég til þess að við finnum lausn á þessu máli og getum haldið áfram því verkefni okkar að tryggja sem best heilbrigði þjóðarinnar,“ segir Katrín að lokum.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, sagði í samtali við Fréttablaðið að mikil vinna væri framundan í kjölfar yfirlýsingar Kára. Reynt verði að tryggja að landamæraskimunin muni áfram ganga eins vel fyrir sig og hingað til.