Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst una dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í bótamáli tveggja barna Sævars Marinós Ciesielski sem kveðinn var upp í síðasta mánuði og bjóða þremur börnum Sævars sömu hækkun bóta og systkinum þeirra tveimur voru dæmdar með dóminum. Dánarbúi Tryggva Rúnars verður einnig boðin sátt á sama grundvelli að sögn forsætisráðherra sem leggur fram minnisblað um málið í ríkisstjórn í dag.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur voru bætur til Sævars taldar hæfilegar 385 milljónir, en áður höfðu verið boðnar alls 239 milljónir til aðstandenda hans. Fjárhæðin skiptist milli fimm barna hans.

„Þetta er það sem ég mun ræða í ríkisstjórn og vona auðvitað, eins og við féllumst á niðurstöðu í málum Guðjóns Skarphéðinssonar og dánarbús Kristjáns Viðars Júlíussonar, að komnar séu lyktir hvað varðar bætur vegna sýknudómsins sem féll í september 2018,“ segir hún en tekur fram að þessi framvinda málsins miðist við að sjálf uni börn Sævars hinum nýja dómi og áfrýi honum ekki sjálf.

„Þegar lögin um bótagreiðslur vegna málsins voru samþykkt, var lögð áhersla á að aðilar gætu tekið við þeim greiðslum sem þá voru boðnar og um leið skotið málum sínum til dómstóla. Nú er komin lína bæði hvað varðar fjárhæðir sem og rétt eftirlifenda. Við ætlum að fylgja þeirri línu og vonum að þessum kafla uppgjörs málsins sé að ljúka,“ segir Katrín.

Ríkið var sýknað af bótakröfu dánarbús Tryggva Rúnars í Landsrétti skömmu fyrir jól en Hæstiréttur hefur fallist á að taka það til meðferðar. Náist sættir á þeim grundvelli sem forsætisráðherra leggur til verður málið væntanlega fellt niður.