Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi Björk Guðmundsdóttur tónlistarkonu tvenn smáskilaboð í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í september árið 2019 og ræddi einu sinni við hana í síma. Björk sendi nokkur smáskilaboð en Katrín var aldrei í samskiptum við sænska loftslagsaðgerðasinnann Gretu Thunberg.

Þetta kemur fram í svari Katrínar við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um samskiptin sem Björk hefur lýst sem svikum. Í viðtali við breska blaðið The Guardian í sumar sagði Björk að Katrín hefði svikið sig og Thunberg. Sagði Björk að Katrín hefði gert samkomulag um að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum en hætt við á síðustu stundu.

„Í samskiptum forsætisráðherra við Björk Guðmundsdóttur voru engin fyrirheit gefin um formlega yfirlýsingu af hálfu ráðherra, ríkisstjórnar eða Alþingis um neyðarástand í loftslagsmálum,“ segir í svari Katrínar. Katrín hafi í ræðu sinni sagt að enginn velktist í vafa um það lengur að heimurinn stæði frammi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum.

„Eftir umræðu á vettvangi ríkisstjórnar um loftslagsmál var það niðurstaðan, eftir pólitískt samráð, að betur færi á því að láta verkin tala og leggja áherslu á að ná árangri með raunhæfum og nauðsynlegum aðgerðum í loftslagsmálum en að nálgast viðfangsefnið með yfirlýsingu af þessu tagi sem væri táknræn í eðli sínu og hefði ekki sjálfkrafa áhrif á aðgerðir gegn loftslags­vánni,“ segir enn fremur í svarinu.