Síðasti banda­ríski her­maðurinn yfir­gaf Afgan­istan í gær. Talí­banar eru nýju vald­hafar í landinu og hvað fram­tíðin ber í skauti sér fyrir íbúa landsins er mjög á huldu. Enn er fjöldi fólks sem vill komast frá landinu og hugnast lítt að búa undir stjórn talí­bana. Ís­lensk stjórn­völd hafa heitið því að taka við allt að 120 flótta­mönnum frá Afgan­istan.

Frétta­blaðið ræddi við Katrínu Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra eftir ríkis­stjórnar­fund í dag. Hún segir það hafa gengið mis­vel að koma fólki frá Afgan­istan og ekki hafi tekist að hafa upp á öllum þeim sem eru á lista stjórn­valda sem muni halda á­fram að reyna að koma fólkinu þaðan.

Nú eru Banda­ríkja­menn farnir frá Afgan­istan og ljóst að við tekur mikil ó­vissa. Ert þú bjart­sýn á að okkur takist að koma fleiri Af­gönum hingað til Ís­lands?

„Við náðum ekki í alla sem voru á okkar lista og það gekk mis­jafn­lega að koma fólki úr landi,“ segir Katrín Jakobs­dóttir sem segir að fólk hafi lagt líf sitt í hættu á flug­vellinum og margar fjöl­skyldur hafi orðið að­skildar þar.

Þetta voru allt í allt 10 manns sem við tókum á móti, bjóst þú við að þessi tala yrði hærri á þessum tíma­punkti þegar fallist var á til­lögur flótta­manna­nefndar í síðustu viku?

„Við munum ekki láta hér staðar numið. Við munum fara yfir hverjir skiluðu sér og hverja náðist í og svo eru fleiri erindi og beiðnir sem við þurfum að taka fyrir á vett­vangi flótta­manna­nefndar og að­gerðar­hóps ríkis­stjórnarinnar,“ segir Katrín.

„Ég ætla ekki að vera bjart­sýn, ég ætla ekki að leyfa mér það. Það er gríðar­lega erfið staða í Afgan­istan. Hún var erfið fyrir yfir­töku talí­bana og hún er orðin enn þá erfiðari,“ segir hún enn fremur.

Katrín segist ekki treysta of mikið á yfir­lýsingar talí­bana um breytta hegðun þeirra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Öryggis­ráð Sam­einuðu þjóðanna sam­þykkti í gær til­lögu um að það verði búið til sér­stakt öryggis­svæði fyrir þá sem vilja yfir­gefa landið, er það eitt­hvað sem við gætum nýtt á­samt öðrum þjóðum?

„Að sjálf­sögðu mun það skipta máli að SÞ beiti sér með þessum hætti. Við erum með sam­þykkt ríkis­stjórnarinnar og þótt svo að það hafi ekki tekist að koma öllum út þá er hún í fullum gildi og svo eru fleiri beiðnir sem þarf að taka fyrir,“ segir Katrín.

Telur þú að það sé hægt að treysta á lof­orð talí­bana um að er­lendir ríkis­borgarar og þeir sem hafa fengið dvalar­leyfi annars staðar fái að fara úr landi?

„Ég ætla að segja maður tekur yfir­lýsingum talí­bana sem aug­ljós­lega er ætlað að segja að hér séu ekki sömu talí­banar við völd í Afgan­istan á ferð, ég tek þeim var­lega og maður þarf að dæma þá af verkum þeirra og það eru ekki upp­lífgandi eða bjart­sýnis­verkandi þessar fréttir sem eru að berast af því hvernig staða kvenna hefur nú þegar breyst,“ segir Katrín að lokum.