„Hamfarastjórnun hefur einkennt þetta kjörtímabil en þar nýtur íslenska þjóðin sín og ég er stolt af því hvernig allt hið opinbera kerfi og allt samfélagið hefur tekist saman á við erfiðleikana.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna á setningarávarpi sínu á landsfundi flokksins í morgun.
Katrín fór yfir þær aðgerðir sem ráðist var í á kjörtímabilinu „Við höfum innleitt þrepaskipt skattkerfi, lengt fæðingarorlof, hækkað barnabætur, styrkt almenna íbúðakerfið, innleitt ný hlutdeildarlán, dregið úr skerðingum hjá eldri borgurum og öryrkjum, stytt vinnuvikuna, lækkað kostnað sjúklinga og styrkt opinbera heilbrigðiskerfið,“ segir Katrín. Hún segir að þetta séu aðgerðir sem hafa verið gerðar, ekki aðeins lofaðar.
Enginn þjóðarleiðtogi óski sér að lenda í heimsfaraldri
Katrín segir að í upphafi ársins 2020 hafi líf og störf okkar allra verið ófyrirséð af algjörlega nýju verkefni næstu mánuði og misseri vegna kórónuveirufaraldursins Katrín segir íslensk stjórnvöld hafi tekið ákvörðun frá upphafi með það að leiðarljósi að vernda líf og heilsu landsmanna til að lágmarka lágmarka samfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar veirunnar.
„Þessi markmið mótuðu stefnu stjórnvalda sem framan af var leið niðurbælingar, að lágmarka smit enda engin leið að hafa stjórn á fjölgun smita ef engar ráðstafanir væru í gildi. Oft var beitt hörðum ráðstöfunum, þó sjaldan jafn hörðum og víða annars staðar, og niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir erfiða tíma þá stendur Ísland í hópi þeirra þjóða þar sem hvað fæst dauðsföll hafa orðið vegna veirunnar. Við stöndum líka í hópi þeirra þjóða sem hafa náð hvað mestum árangri í bólusetningu landsmanna. Reynt var að gera bólusetningaráætlun okkar tortryggilega á hinum pólitíska vettvangi – ýmis orð látin falla sem ekki hafa elst vel,“ segir Katrín.
Þá segir Katrín að áframhaldandi markmið vera þau sömu sem felast í því að vernda líf og heilsu, en á sama tíma að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif.
„Ég er ekki hrædd við dóm sögunnar í þessum efnum – ég er sannfærð um að hann verður sá að Ísland hafi staðið vaktina í þágu fólksins í landinu. Ef heimsfaraldur kórónuveiru verður kosningamál hef ég engar áhyggjur, fólkið í landinu veit að við höfum staðið með því.“
Tilbúin að leiða næstu ríkisstjórn
„Næsta ríkisstjórn snýst um þetta; jöfn tækifæri og jöfn réttindi allra. Næsta ríkisstjórn snýst um að bæta lífskjör á Íslandi með sjálfbærni að leiðarljósi. Við munum öll sjá hversu miklu innviðauppbygging undanfarinna ára mun skila landinu fram á við. Næsta ríkisstjórn snýst um að snúa vörn í sókn í baráttunni gegn loftslagsvánni. Næsta ríkisstjórn snýst um að stíga stór skref í að auka verðmætasköpun í öllum greinum með aukinni áherslu á þekkingargeirann og skapandi greinar. Og þessa ríkisstjórn erum við tilbúin að leiða og tryggja að sú bjarta framtíðarsýn sem við stöndum fyrir verði leiðandi við ríkisstjórnarborðið á næsta kjörtímabilið og tryggja áfram velsæld og framfarir fyrir Ísland – fyrir okkur öll.“
Stefna Vinstri græn kynnt í dag
Katrín talar um að Vinstri- græn hafi sýnt það að þau hefji verkefnin og ljúki þeim með skýrum markmiðum og eru til í að taka slaginn.
„Verkin sýna merkin. Og við viljum halda áfram að vinna í þágu fólksins í landinu,“ segir Katrín.