Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir Þórólf Guðnason, fráfarandi sóttvarnalækni, líklega vera sá sem hún átti flest símtöl við undanfarin tvö ár.

Katrín rifjar upp gott samstarf sitt við Þórólf á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Að sögn Katrínar átti hún fund með Þórólfi í morgun þar sem ýmis atriði tengd aðgerðum stjórnvalda í faraldrinum voru rædd en líkt og greint hefur verið frá hyggst Þórólfur láta af störfum sínum í haust.

„Þegar þau tíðindi voru kunngerð rann það upp fyrir mér að Þórólfur var líklega sá maður sem ég hafði átt flest símtöl við undanfarin tvö ár. Veiran var auðvitað þess eðlis að við vorum stöðugt að fást við nýja stöðu og fá ný gögn og nýjar upplýsingar þannig að ég heyrði í Þórólfi á öllum tímum og ávallt var hann viðræðugóður,“ segir Katrín meðal annars í færslu sinni.

Katrín greinir frá einu eftirminnilegasta símtalinu sínu við Þórólf: „ Eitt eftirminnilegasta símtalið var í sumarfríi þar sem við fjölskyldan vorum á leið á Borgarfjörð eystri. Gunnar var að keyra og ég í símanum einu sinni sem oftar við Þórólf. Ég var mjög niðursokkin í samtalið enda staðan þá orðin viðsjárverð í faraldrinum en tók skyndilega eftir því að minn kæri eiginmaður var kominn langleiðina upp á Jökuldal (fyrir ykkur sem ekki vitið er það sem sagt alls ekki leiðin á Borgarfjörð eystri).

Ég fór þá að benda Gunnari á að hann þyrfti að snúa við og fór þá Þórólfur að ráðleggja mér um rétta leið. Við rifjuðum upp þetta augnablik í dag þegar Þórólfur var orðinn þátttakandi í hjónabandinu og lagði þar gott eitt til,“ segir Katrín að lokum í færslu sinni.