Ríkisstjórnin fundar í hádeginu og mun eiga fund með formönnum flokka í stjórnarandstöðu í kjölfarið til að fara yfir stöðuna. Þá fundar stjórnin með aðilum vinnumarkaðarins á morgun. Þetta kom fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í svari við óundirbúinni fyrirspurn Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar við upphaf þingfundar í morgun.

Allar hendur á dekk

Logi spurði um aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hann sagði bæði of óljósar og of máttlausar. „Þótt þjóðarbúið standi vel er velferðarkerfi í þeim mun veikari málum af því að hér hefur verið rekin hægri stefna í nokkur ár. Við höfum svelt heilbrigðiskerfið, innviðirnir hafa fengið að grotna niður, jöfnunartækin hafa verið veikt,“ sagði Logi og óskaði svara frá ríkisstjórninni næstu skref í aðgerðum fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu.

„Það vill þannig til að nú erum við öll stödd í sama bátnum og við þurfum einfaldlega allar hendur á dekk,“ sagði Logi.

„Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir þrengingum.“

Allt önnur staða en 2008

„Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir þrengingum. Þær verða tímabundnar. Ríkisstjórnin mun gera það sem þarf til þess að við getum komið standandi niður úr þessum hremmingum. Þjóðarbúið stendur vel. Staðan er allt önnur en 2008 þegar við stóðum frammi fyrir þeim þrengingum sem við lentum í þá,“ sagði Katrín. Nú sé til öflugur gjaldeyrisvaraforði, skuldahlutfall lágt, viðskiptajöfnuður jákvæður og skuldsetning heimila og atvinnulífs miklu minni.

Svo vék Katrín að að aðgerðunum sem ríkisstjórnin kynnti í vikunni til að styðja við atvinnulífið. „Þær aðgerðir sem við kynntum á þriðjudag voru eingöngu þær fyrst við munum þurfa frekari aðgerðir í vinnumarkaðsmálum, félagslegum stöðugleika og að sjálfsögðu fjárfestingu til að tryggja það að við komum standandi niður.“

Tímabundnir erfiðleikar

Katrín hvatti þingheim til samvinnu í erfiðleikunum framundan. „Við skulum ekki draga neina dul á það. Þetta verður ekki auðvelt. En eins og ég sagði hér í mínu fyrra svari þá stöndum við mjög vel til að takast á við erfiðleikana. Þeir verða tímabundnir og þess vegna skiptir miklu máli að það sem við gerum sé réttlátt, skynsamlegt og þjóni hagsmunum heildarinnar og það skiptir miklu máli að við eigum sem allra best samráð eftir því sem við getum.“