Katrín Jakobs­dóttir for­­sætis­ráð­herra hefur trú á að þær sam­komu­tak­­markanir sem taka gildi á mið­­nætti dugi til að koma böndum á vöxt Co­vid-far­aldurins og bindur vonir við að örvunar­bólu­­setning muni verða til þess að far­aldurinn verði við­ráðan­­legri.

Ráð­herra­­­nefnd um sótt­varna­­­mál, þar sem sitja for­­­menn stjórnar­­­flokkanna, heil­brigðis­ráð­herra, dóms­­­mála­ráð­herra og mennta­­­mála­ráð­herra kom saman á fjar­fundi með Þór­ólfi og fleiri em­bættis­­­mönnum fyrir fund ríkis­­­stjórnarinnar í dag. Þór­ólfur fór þar yfir til­­­lögur sínar og rök­stuðning í minnis­blaði um hertar að­­­gerðir sem hann sendi Svan­­dísi Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra síð­­­degis í gær.

For­sætis­ráð­herra segir að þar hafi ekki verið mikill á­greiningur milli flokka.

„Í sjálfu sér ekki. Auð­vitað er þetta bara staðan sem er uppi. Eðli­lega spyrjum við öll spurninga, það eru alltaf mörg á­lita­mál sem koma upp, til dæmis hversu hart á að ganga fram. Ég trúi því að þessar ráð­stafanir muni skila til­ætluðum árangri og ég trúi því líka, vegna þess að við erum að fara í þetta átak með þriðja skammtinn sem við höfum alla á­stæðu til að ætla að veiti varan­legri vernd en fyrri skammtar út frá þessum rann­sóknum sem við erum að sjá. Þær eru auð­vitað tak­markaðar en gefa mjög góða von. Þetta er ekki óska­staða nokkurs manns við ríkis­stjórnar­borðið en við þurfum hins vegar að finna þá leið sem við teljum að skili árangri án þess að það hafi of mikil á­hrif á sam­fé­lagið.“

Hún vonast til að örvunar­skammturinn hjálpi við að komast út úr far­aldrinum.

„Að sjálf­sögðu. Auð­vitað vitum við það að ein­hvern tíma linnir þessum far­aldri en ég hef þá trú að, miðað við þau gögn sem við höfum núna, að þessi þriðji skammtur geti orðið gríðar­lega mikil­vægt skref í að stabílisera stöðuna.“

„Ég trúi því að þessar ráð­­stafanir muni skila til­­ætluðum árangri,“ sagði Katrín að loknum ríkis­stjórnar­fundi.
Fréttablaðið/Ingunn Lára Kristjánsdóttir