„Verkefnið er metið gerlegt, en líka þannig að það sé mjög margt sem þurfi að ganga upp. Við teljum að þetta geti gengið upp en erum mjög meðvituð um að óvissan er mikil og margt getur farið úrskeiðis á leiðinni,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um skimun fyrir COVID-19 á Keflavíkurflugvelli.

Skýrsla verkefnisstjórnar sem skipuð var til að undirbúa framkvæmdina var kynnt í ríkisstjórn í gær. Tillagan sem lá til grundvallar var að opnað yrði fyrir sýnatöku ferðamanna við komuna í Keflavík frá 15. júní sem yrði þá valkostur við sóttkví.

„Núna munum við bara hefja þessa vinnu. Við gerðum ráð fyrir því að það yrði nú kannski ekki mikil flugumferð í Keflavík 15. júní. En það er í rauninni enginn sem treystir sér til að spá hver hún á endanum verður,“ segir Katrín.

Að óbreyttu telur verkefnisstjórnin að hægt sé að greina fimm hundruð sýni á dag.
Fréttablaðið/Ernir

Í skýrslunni kemur fram að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans sé aðeins í stakk búin til að greina fimm hundruð sýni á dag. Með því að bæta tækjabúnað og tryggja fleira starfsfólk yrði markmiðinu um þúsund sýni á dag náð um miðjan júlí.

Þá þurfi að taka minnst 107 sýni á dag til að kostnaður verði undir 50 þúsund króna takmarkinu. Miðað við 500 sýni á dag yrði kostnaðurinn hins vegar 23 þúsund krónur.

Áhætta fyrir Landspítalann

Í minnisblaði frá Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans, til heilbrigðisráðuneytisins, segir að faraldurinn hafi afhjúpað ýmsa veikleika heilbrigðiskerfisins. Á sama tíma hafi hins vegar birst styrkleikar.Greiningar á einkennalausum ferðamönnum séu að svo stöddu ekki trygging fyrir því að sjúkdómurinn sé ekki til staðar. Komi til innlagna sjúklinga, innlendra eða erlendra, muni það hafa mikil áhrif á starfsemi spítalans.

„Áhætta fyrir reglulega starfsemi Landspítala í sumar sérstaklega er því veruleg og mun spítalinn strax fara á hættustig með fyrsta sjúklingi sem þarfnast innlagnar, með tilheyrandi röskun á starfseminni,“ segir í minnisblaðinu.

Lokaákvörðun liggur ekki fyrir

Í skýrslunni segir að það þurfi að taka minnst 107 sýni á dag til að kostnaður verði undir 50 þúsund króna takmarkinu. Miðað við 500 sýni á dag yrði kostnaðurinn hins vegar 23 þúsund krónur.

„Við höfum ekki enn tekið ákvörðun um hvernig þessari gjaldtöku verður háttað. Við höfum sagt að hugsanlega verði lagt af stað í blábyrjun án gjaldtöku, en við gerum ráð fyrir að til lengri tíma verði rukkað fyrir,“ segir Katrín.

Katrín segir að lokaákvörðun í málinu liggi ekki fyrir. Skila eigi hagrænni greiningu um næstu mánaðamót, sem muni skipta máli við endanlega ákvörðun.

„Í þessu ferli öllu höfum við þurft að vera auðmjúk fyrir því að hlutirnir gerast hratt og geta breyst hratt. Við sjáum að önnur ríki eru að opna fyrir ferðir. Þýskaland er að ígrunda að opna fyrir flug til Íslands svo dæmi sé tekið,“ segir Katrín.

Meðal annarra þátta sem verkefnisstjórnin bendir á er að huga þurfi að birgðastöðu sýnatöku­pinna, tryggja þurfi að frávísunarheimildir gagnvart þeim sem ekki hlíta sóttvarnareglum séu skýrar og að upplýsingagjöf til ferðamanna sé tryggð.

Það er mat verkefnisstjórnarinnar að hægt verði að skila niðurstöðum úr sýnum á um fimm klukkustundum, en aka þarf með sýnin frá flugvellinum til Reykjavíkur. Sýni sem berist eftir klukkan 17 verði greind daginn eftir, nema mönnun verði aukin.