Katrín Jakobsdóttir hefur óskað eftir því við settan ríkislögmann að farið verði yfir dóma Landsréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, til að meta hvort af þeim megi draga ályktanir um það hvernig bótafjárhæðin hafi verið ákvörðuð. Þetta kemur fram í svari Katrínar við fyrirspurn Fréttablaðsins, en fyrirspurn var beint til hennar í tilefni af opnu bréfi Páls Rúnars M. Kristjánssonar, lögmanns erfingja Tryggva Rúnars Leifssonar, sem birt var í Fréttablaðinu í vikunni.

Í bréfinu hvetur Páll Rúnar Katrínu til að ná sáttum við aðstandendur Tryggva Rúnars en Landsréttur hafnaði kröfu þeirra um frekari bætur á grundvelli aðildarskorts þar sem Tryggvi sjálfur var látinn áður en bótakrafan var gerð.

Sama dag og dómur Landsréttar í máli Tryggva Rúnars var kveðinn upp voru kveðnir upp tveir dómar um umtalsvert hærri bætur til annarra dómþola í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, þeirra Guðjóns Skarphéðinssonar og Kristjáns Viðars Júlíussonar.

Í svari sínu útilokar Katrín ekki að viðræður um sættir verði teknar upp á ný og nefnir einnig að skoða verði málið í samhengi við aðstæður erfingja Sævars Ciesielski þar sem réttarstaðan kunni að vera hliðstæð.

Þá segir Katrín einnig að máli skipti hvort óskað verði eftir leyfi til að áfrýja dómi í máli Tryggva til Hæstaréttar og hvort slíkt leyfi verði veitt.

Svar forsætisráðherra við fyrirspurn Fréttablaðsins má lesa hér:

  1. Mun forsætisráðherra nýta tækifærið sem Páll fjallar um í þessu bréfi og beita sér fyrir því?

Allt frá því að Hæstiréttur kvað upp sýknudóm 27. september 2018 í málum fyrrverandi sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hef ég fyrir hönd ríkisstjórnarinnar beitt mér fyrir því að ná sáttum við þá sem voru órétti beittir og aðstandendur þeirra. Fyrir hönd stjórnvalda bar ég þá fram afsökunarbeiðni til sakborninga, aðstandenda og annarra sem hafa átt um sárt binda vegna málsins. Sett var á laggirnar sáttanefnd sem fékk það hlutverk að leiða viðræður og sáttaumleitanir við þá sem sýknaðir voru og aðstandendur þeirra. Á grundvelli þeirra umleitana var lagt fram frumvarp fyrir Alþingi og í janúar 2020 voru greiddar bætur á grundvelli þeirra laga. Þannig var hægt að koma til móts við aðila sem annars hefðu ekki átt lagalegan rétt. Enn fremur birtist sáttavilji stjórnvalda í því að viðkomandi gátu tekið við bótum en samt farið í mál og látið reyna á hvort þær bætur væru nægilega miklar. Nú liggja fyrir dómar Landsréttar í þremur slíkum málum. Landsréttur hækkaði bætur umtalsvert til Guðjóns Skarphéðinssonar og dánarbús Kristjáns Viðar Júlíussonar og dæmdi þeim hæstu miskabætur sem dæmdar hafa verið. Ríkið var hins vegar sýknað af kröfum dánarbús Tryggva Rúnars Leifssonar og því ákvað Landsréttur ekki til frekari bætur í því tilfelli. Ekki má þó gleyma því að erfingjar Tryggva Rúnars höfðu fengið greidda 171 milljón kr. í janúar 2020 á grundvelli þeirrar lagaheimildar sem ég beitti mér fyrir og virðist nú hafa verið forsenda fyrir því að viðkomandi fengju þó þær bætur.

  1. Mun íslenska ríkið nota þetta tækifæri til að ná sáttum og ljúka málinu?

Ég hef í fyrsta lagi óskað eftir því við settan ríkislögmann að farið verði yfir dóma Landsréttar til að meta hvort af þeim megi draga ályktanir um það hvernig bótafjárhæðin hafi verið ákvörðuð. Í öðru lagi verður ekki fram hjá því litið að lagaheimildin sem byggt var á við greiðslu bóta í janúar 2020 gilti einungis í sex mánuði og er því runnin út. Í þriðja lagi þarf að skoða málið í samhengi við aðstæður erfingja Sævars Ciesielskis þar sem réttarstaðan kann að vera hliðstæð. Þess má geta að aðalmeðferð í máli tveggja úr hópi þeirra síðastnefndu fer fram í héraði í janúar næstkomandi. Í fjórða lagi þá skiptir máli hvort óskað verði eftir leyfi til áfrýjunar dóma Landsréttar og hvort slíkt leyfi fæst.

  1. Hvað finnst forsætisráðherra um dóminn?

Eftir samráð í ríkisstjórn var ákveðið að una dómum Landsréttar í þessum þremur málum. Í tveimur dómanna birtist mat dómstóla á hvað séu hæfilegar bætur við þessar fordæmalausu aðstæður. Ég fagna því mati enda færumst við þar með væntanlega nær sáttum og lyktum þessara þungbæru mála. Mín von er að þessi niðurstaða og ekki síst dómsforsendur þar sem kemur fram mikilvæg viðurkenning á þeim brotum sem sakborningar urðu fyrir séu mikilvægur hluti af lúkningu þessara erfiðu mála. Í þriðja málinu var fallist á kröfu ríkisins um sýknu. Ég skil vonbrigði þeirra sem eiga þar í hlut. Eitt af því sem bjó að baki lagasetningu Alþingis og nálgun stjórnvalda var einmitt að gæta jafnræðis milli einstaklinga sem áttu í hlut og aðstandenda óháð lögformlegri réttarstöðu að þessu leyti. Nú verður farið yfir málið að nýju eins og áður segir.