Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, svarar Birni Leví Gunnars­syni, þing­manni Pírata á Face­book síðu sinni nú í kvöld og segir mál­flutning hans um meintar lygar hennar „dapur­legan.“

Til­efnið er frétt RÚV þar sem greint var frá um­mælum Björns frá þing­fundi í dag. Þar sagði hann að fram­setning hennar á gögnum um ráð­stöfunar­tekjur Ís­lendinga hefðu verið blekkjandi og að hún hefði logið með þeirri töl­fræði sem hún hefði vitnað í.

Ljóst er að Katrín gefur lítið fyrir þann mál­flutning. „Björn Leví Gunnars­son sagði mig ljúga í þing­sal þegar ég sagði í ræðu á mánu­dag að sam­kvæmt upp­lýsingum úr Tekju­sögunni, gagna­grunni sem stjórn­völd hafa sett upp og birt og inni­heldur upp­lýsingar um ráð­stöfunar­tekjur Ís­lendinga frá 1991 til 2018, að ráð­stöfunar­tekjur að teknu til­liti til fjár­magns­tekna jukust hlut­falls­lega mest hjá neðstu tekju­tíundinni og minnkuðu hjá efstu tekju­tíundinni á árinu 2018.“

Bendir Katrín á að hún hafi tekið fram að gögnin væru að teknu tillti til fjár­magns­tekna.

„En hvað sagði ég: Jú, að teknu til­liti til fjár­magns­tekna (sem sagt að þeim með­töldum enda eru fjár­magns­tekjur tekjur) þá jukust ráð­stöfunar­tekjur mest hjá neðstu tekju­tíundinni og minnkuðu hjá efstu tekju­tíundinni (sem vissu­lega er með meiri fjár­magns­tekjur en aðrar tíundir) á árinu 2018. Það er stað­reynd sem ég sé ekki (sam­kvæmt frétt RÚV) að þing­maðurinn hafi getað hrakið enda var ég ekki að bera neitt saman annað en árin 2017 og 2018.“

Út­skýrir for­sætis­ráð­herra svo mál sitt nánar og endar færsluna á að segja mál­flutninginn dapur­legan.

„Það er dapur­legur mál­flutningur að saka aðra um lygar vegna þess að menn eru ekki sáttir við að heyra fréttir um aukinn jöfnuð á árinu 2018. Svona mál­flutningur rýrir traust á stjórn­málum.“