Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, fyrrverandi formaður kjaranefndar Ljósmæðrafélags Íslands, vill leiða lista Pírata í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum næsta haust. Hún tilkynnti þetta í dag.
Katrín Sif er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og sem stendur starfar hún sem ljósmóðir í mæðravernd og sinnir heimafæðingaþjónustu.
Hún var formaður kjaranefndar Ljósmæðrafélagsins og sat í stjórn félagsins á árunum 2017 til 2019. Á þeim tíma leiddi hún harða kjarabaráttu ljósmæðra.
Katrín hefur þá staðið í baráttu fyrir lögleiðingu nýrrar stjórnarskrár og er þátttakandi í Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá sem og í Stjórnarskrárfélaginu.
Hún er gift Aðalsteini Ingólfssyni og eiga þau samtals átta börn.