Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segir að ríkisstjórnin sé að taka varfærin skref í átt að nýju kerfi vegna gagnrýni sem sett hefur verið fram opinberlega um að hvatar til að festa kaup á umhverfisvænum bifreiðum verði stórskertir samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, sagði í Fréttablaðinu: „Það skiptir rosalegu máli að setja kraft í orkuskiptin. Ívilnanir eru fjárfestingar til framtíðar. Hún sagði ekki tímabært að draga úr stuðningi við vistvæna bíla.

„Ef við náum ekki loftslagsmarkmiðum verðum við að sæta viðurlögum sem munu kosta okkur fjármuni. Það er betra að fjárfesta í hvötum til að hlaupa hraðar hvað varðar orkuskiptin en að aðhafast ekkert,“ sagði Halla Hrund.

Bent hefur verið á mótsögn þess að Katrín Jakobsdóttir leggi blessun sína yfir þessar breytingar á sama tíma og hún sé formaður stjórnmálaflokks sem kennir sig við grænar áherslur og umhverfisvernd. Katrín Jakobsdóttir segir, innt viðbragða við gagnrýninni, að ríkisstjórnin beri ábyrgð á að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsbaráttunni. Einnig beri ríkisstjórnin ábyrgð á fjármögnun vegakerfisins og þar með að öryggi á vegum verði tryggt.

Myndin sýnir muninn á skattlagningu vistvænna bíla og bensínbíla, fyrir og eftir breytingu eins og ríisstjórnin setur áætlanir fram.

„Þróunin í átt að hreinorkubílum hefur verið hröð og áfram verða ívilnanir í gildi gagnvart þeim þó að dregið sé úr þeim,“ segir Katrín.

„Það er verið að taka varfærin skref í átt að nýju kerfi þar sem þeir sem nota vegakerfið greiða fyrir notkun sína líkt og áður, og þar sem fjölmargar aðgerðir og framlag allra geira á Íslandi tryggja að við náum markmiðum okkar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ bætir Katrín við.

Forsætisráðherra segir unnið að uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum til að hún endurspegli verkefni sem þurfi að ráðast í til að draga úr losun á okkar ábyrgð, um 55 prósent fyrir árið 2030.„Fjölmargar aðgerðir í aðgerðaáætlun stjórnvalda snúa að orkuskiptum sem þurfa að eiga sér stað á öllum sviðum,“ segir Katrín.

Þá segir forsætisráðherra að ríkis­stjórnin leggi sérstaka áherslu á að efla almenningssamgöngur með því að fjármagna stofnkostnað, ekki síst Borgarlínunnar, sem og aðgerðir til að stuðla að orkuskiptum í þungaflutningum, sjávarútvegi og flugsamgöngum.

„Þá verður þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun um orkuskipti einnig lögð fram á þessum þingvetri til að styðja við þetta,“ segir Katrín Jakobsdóttir.