Aukinni víg­væðingu í Norður­höfum og á Norður­slóðum var mót­mælt ein­róma á flokks­ráðs­fundi Vinstri grænna sem fram fór í dag á Hótel Skafta­felli í Ör­æfum. Þá var ham­fara­hlýnun og veður­far­söfgum vegna loft­lags­breytinga lýst sem brýnasta pólitíska við­fangs­efni sam­tímans.

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og formaður VG, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að of snemmt sé að segja til um hvort hún muni mótmæla við­komandi víg­væðingu Norður­slóða á fundi sínum með Mike Pence, vara­for­seta Banda­ríkjanna, þar sem ó­ljóst sé hvort af fundinum verði.

„Nú er al­gjör­lega ó­víst hvort verði af þeim fundi. En ég tók þessi mál til að mynda upp á fundi með Mike Pompeo, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, þegar hann kom ­hingað til lands og fór sér­stak­lega yfir þessa stöðu,“ segir Katrín og bendir á að hún hafi á­vallt tekið fram þessa af­stöðu sína á fundum með leið­togum norður­skauts­ráðsins.

Í til­kynningu frá Hvíta húsinu vegna heim­sóknar Mike Pence, sem mun að minnsta kosti hitta Guð­laug Þór Þórðar­son, utanríkisráðherra, kom fram að vara­for­setinn hyggist meðal annars ræða mikil­vægi land­fræði­legrar legu Ís­lands á norður­heims­skauts­svæðinu, sem og starf­semi NATO vegna aukinna um­svifa Rúss­lands í heims­hlutanum.

Katrín segir að stærstu fréttirnar af flokks­ráðs­fundi Vinstri grænna séu klár­lega þær að­gerðir sem flokkurinn boði í loft­lags­málum og gegn ham­fara­hlýnun. Þau mál tengist norður­slóðum og víg­væðingu þeirra með beinum hætti. Mót­mæli gegn víg­væðingu á norður­slóðum hafi alltaf verið hluti af stefnu flokksins.

„Við höfum alltaf lagt á­herslu á loft­lags­breytingar og að­gerðir gegn þeim, til að mynda í norður­skauts­ráðinu þar sem við förum með for­mennsku, og til að mynda hvernig við getum með frekari hætti komið í veg fyrir mengun á hafinu.“