Þing kemur saman á mánudag til fyrsta fundar vorþings. Nokkur stór mál frá haustþingi bíða enn meðferðar og afgreiðslu en uppfærð þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verður birt eftir helgi.

„Þetta er ansi langt þing sem er fram undan og nokkrir ráðherrar með stór mál,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Samkvæmt starfsáætlun er gert ráð fyrir að þing starfi til 10. júní.

Meðal mála sem forsætisráðherra nefnir og gætu orðið fyrirferðarmikil í þinginu eru mál mennta- og menningarmálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla og menntasjóð námsmanna sem mælir fyrir um breytingar á námslánum og innleiðingu námsstyrkja. Þessi mál eru bæði til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Hún nefnir einnig samgöngumál og stór mál umhverfisráðherra; rammaáætlun, miðhálendisþjóðgarð og þjóðgarðsstofnun.

„Sjálf er ég með mál um uppljóstraravernd sem komið er til meðferðar í þinginu og frumvarp sem á að taka á hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds verður lagt fram um leið og þing kemur saman,“ segir Katrín og nefnir einnig vinnu við endurskoðun jarðalaga.

Stefnt sé á að fyrsti bandormur í þeirri endurskoðun fari í samráðsgátt í febrúar en þar verði kveðið á um skilyrði fyrir jarðakaupum aðila utan EES-svæðisins auk ákvæðis um landeignaskrá.

Samgöngur fyrirferðarmiklar

Þá munu stór mál frá Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, verða áberandi. Samkomulag var gert fyrir jól um að stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga yrði afgreidd fyrir lok janúar. Þar er meðal annars gerð tillaga um lágmarksíbúafjölda. Samgönguáætlanir, bæði til fimm og fimmtán ára, verða líka á dagskrá.

„Það væri gott að klára það sem fyrst á vorþinginu en eðli máls samkvæmt tekur það einhvern tíma því þetta eru umfangsmiklar áætlanir,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður-Ingi_180912_223452.jpg

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra

Ríkisstjórnin afgreiddi í gær frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Það snýst um að ríkið fari í samvinnu við einkaaðila um sex tilteknar framkvæmdir sem yrðu fjármagnaðar að hluta eða í heild með veggjöldum.

„Ég legg auðvitað áherslu á að geta klárað það til að koma verkefnum af stað eins og Ölfusárbrú og Hornafjarðarfljóti sem gætu þá farið af stað í lok þessa árs.“

Sigurður Ingi býst einnig við að í upphafi vorþings verði rætt um uppbyggingu innviða. „Þessi ofstopi í veðrinu síðustu vikur hefur svolítið afhjúpað að innviðir hafa ekki verið nægilega öflugir í langan tíma. Þrátt fyrir að það sé á dagskrá þessarar ríkisstjórnar munu sjálfsagt verða umræður um hvort við séum að gera nóg. Ég er til í þá umræðu.“

Áfengið rætt eins og alltaf

Miklar annir eru í dómsmálaráðuneytinu; málflutningur verður í Landsréttarmálinu í byrjun næsta mánaðar og skipulag yfirstjórnar löggæslunnar er í skoðun. „Það þarf að lögfesta heimild fyrir lögregluráði sem ég kynnti fyrir jól og svo þarf að greina verkefni ríkislögreglustjóra og ákveða hvort skýra þurfi betur verkefni embættis ríkislögreglustjóra,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra en á ekki von á að þingmál þar að lútandi verði lagt fram fyrr en í fyrsta lagi á næsta haustþingi.

Annars á Áslaug von á að mál hennar um áfengi og mannanöfn fái mikla umfjöllun í þinginu á þessu vori en stefnt er að framlagningu þeirra í febrúar og mars. „Svo er ég með mjög gott mál um skipta búsetu barna og heimild foreldra til að semja um skipta búsetu barna,“ segir Áslaug og nefnir einnig breytingar á útlendingalögum sem varða skilyrði dvalarleyfa.
Mestu átökin innan ríkisstjórnarinnar

„Ég held að það séu mörg átakamál í farvatninu, bæði á vorþingi og það sem eftir er af kjörtímabilinu. Það er samt ekki víst að þau komi öll fram vegna þess að átökin verða meiri innan ríkisstjórnarinnar heldur en á milli stjórnar og stjórnarandstöðu,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Hún segir að þegar svo langt sé liðið á kjörtímabilið sé það orðið ljóst að samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar sé ekki að ganga eftir. „Ríkisstjórnin er þannig samsett að hún setur ekki fram nein stórkostleg átakamál. Ég held hún muni alltaf draga lappirnar í þeim málum og fresta því að taka á þeim.“

Oddný G Harðardóttir eldhúsdagsumræður.jpg

Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar

Sérstaklega nefnir Oddný þar mál eins og fjölmiðlafrumvarp, rammaáætlun og umhverfismál.

„Svo munum við setja velferðarmálin á dagskrá. Ekki síst kalla eftir stórsókn í heilbrigðskerfi og menntakerfi sem búið var að lofa. Byggðamálin skipta auðvitað líka mjög miklu máli þannig að fólki sé ekki mismunað eftir búsetu.“

Umræða um spillingarmál og skattrannsóknir megi heldur ekki gleymast. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við Samherjaskjölunum hafi til að mynda verið mjög máttlaus hingað til.

„Við munum sjá til þess að það mál gleymist ekki. Það verður kallað eftir viðbrögðum við spillingu. En líka eftir viðbrögðum sem muni leiða til breytinga á fiskveiðikerfinu þannig við fáum almennilegt auðlindaákvæði í stjórnarskrá.“

Vinna við endurskoðun stjórnarskrár heldur áfram

Tilkynnt var í gær um fyrirhugaða endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og landsdóm. „Þetta er auðvitað löngu tímabært og byggir á samþykkt Alþingis frá 2010 og svo hefur þetta komið upp aftur núna í nefnd formanna flokkanna um endurskoðun stjórnarskrárinnar,“ segir Katrín. Í samræðum nefndarinnar hafi komið fram sú eindregna afstaða að rétt væri samhliða vinnu við endurskoðun ákvæða um þetta í stjórnarskrá yrði ráðist í að framfylgja þessari samþykkt frá 2010 og ráðast í endurskoðun þessarra laga.

Aðspurð segir Katrín að fundað verði um stjórnarskrána fram á vor. „Ég er að vona að við sjáum fleiri frumvörp í samráðsgátt á þessari önn og svo stefni ég á að leggja frumvörp um breytingar á stjórnarskrá fram strax í upphafi næsta haustþings.“

Helstu mál á vorþingi

Stuðningur við einkarekna fjölmiðla
Samgönguáætlun
Vegaframkvæmdir í samvinnu við einkaaðila
Gjaldtaka af umferð
Leigubílar
Fjármálaáætlun
Vernd uppljóstrara
Lög um útlendinga og mál tengd Schengen samstarfinu
Miðhálendisþjóðgarður
Rammaáætlun
Frumvarp um neyslurými
Þjóðgarðsstofnun
Sveitarstjórnalög (sameining sveitarfélaga)
Hagræðing í skipulagi sýslumannsembætta
Rýmkun reglna um áfengiskaup (netverslun)
Breytingar á lagaumhverfi barnaverndar