Katrín Tanja Davíðsdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit, skipar sextánda sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram um helgina. Hingað til virðist hún hafa látið fara hægt um sig í kosningabaráttunni, eða þangað til í morgun þegar hún birti pistil í Vísi.

Í pistlinum fer Katrín fögrum orðum um Hildi Björnsdóttur, oddvita flokksins í borginni, og kallar eftir því að fólk kjósi hana þar sem hún sé góð fyrirmynd.

Hún byrjar á að ræða hugtakið „dóttir”, sem er áberandi í Crossfit-heiminum, sem hún segir að standi fyrir „þann kraft og styrk sem felst í íslenskum konum og það hugrekki að trúa því að við getum gert allt það sem við ætlum okkur.“ Hún segir Hildi gott dæmi um „dóttur“

„Hildur er, rétt eins og dæturnar í crossfit heiminum, mikilvæg fyrirmynd fyrir ungar og efnilega konur. Hún hefur á skömmum tíma orðið öflugur talsmaður borgarbúa og eftirtektarverð stjórnmálakona. Hildur er svo sannarlega tilbúin, og hvað gæti veitt meiri innblástur en að sjá unga og glæsilega konu fá það tækifæri sem hún gerir tilkall til.“

Katrín gengst við því að stjórnmál snúist um strauma og stefnur, en segir einnig mjög mikilvægt að þau skapi fyrirmyndir og góð hughrif. „Stjórnmál snúast þó ekki síður um að skapa fyrirmyndir og góð hughrif. Hildur er alvöru fyrirmynd. Manneskja sem háði erfiða baráttu, hafði sigur og sækir nú til æðstu metorða!“ segir Katrín um Hildi.