„Ég vil bara segja það að það er í raun og veru ríkisstjórnin sem ákveður að birta lista yfir kaupendur í þessu útboði. Það er fjármálaráðherra sem gerir það og í samráði við ríkisstjórnina. Það er fjármálaráðherra sem kallar eftir úttekt ríkisendurskoðunar, þannig að ríkisstjórnin hefur sýnt það í öllum sínum verkum að við viljum fá hér allt upp á borð í þessu máli og erum reiðubúin til að takast á við þá annmarka sem hafa komið í ljós við framkvæmdina.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra aðspurð að því hvernig hún telur að traust almennings sé á ríkisstjórn Íslands eftir útgáfu skýrslu ríkisendurskoðunar á sölu hlut ríkisins í Íslandsbanka.

„Að sjálfsögðu heyrir verkefnið undir fjármálaráðherra en hinsvegar er það svo að ég tel að með okkar verkum höfum við í raun og veru tekist á við þá ábyrgð sem því fylgir, það er að segja að setja hér allt upp á borð þannig að það verði engu stungið undir stól.“

Veltir því upp hvort aðferðafræðin eigi við

Katrín lýsti því yfir á Alþingi í gær að hún hefði orðið fyrir vonbrigðum vegna málsins. Aðspurð segir Katrín að vonbrigði sín snúi að framkvæmd sölunnar.

„Ég er mjög ánægð með þessa skýrslu, mér finnst hún í raun og veru fara mjög vel yfir þetta mál, svara mjög mörgum spurningum sem voru uppi í vor og mér finnst þetta gott verk. Vonbrigði mín snúa að því að þarna kemur skýrt fram að það voru annmarkar á framkvæmdinni við sölu á þessum hlut í Íslansbanka,“ segir Katrín.

„Annmarkar sem varða upplýsingagjöf um þessa aðferð sem var valin, sömuleiðis á síðari stigum fram-kvæmdarinnar þegar kemur til að mynda að tilboðsbókinni þá er það mat ríkisendurskoðunar að hún sé sett fram með ófullnægjandi hætti. Eins og ég segi þessir annmarkar valda mér vonbrigðum og segja mér það að það er mjög mikilvægt að þetta fyrirkomulag verði allt tekið til endurskoðunar.“

Var fyrirkomulagið mistök?

„Ja, þegar ákvörðunin er tekin um að selja þennan hlut þá er það í sjálfu sér bara pólitísk ákvörðun. Það er síðan ráðgjöf Bankasýslu ríkisins að þessari aðferðafræði sé beitt. Það var spurt ýmissa spurninga um þessa aðferðafræði og ég held að skýrslan sýni hinsvegar að það hafi einfaldlega ekki tekist að svara spurningum eða miðla upplýsingum um hana,“ segir forsætisráðherra.

„Ég veit það og þekki það vel að þessi aðferðafræði hefur verið nýtt annars staðar en ég hreinlega velti því upp hvort þessi aðferðafræði eigi hreinlega við hér í íslensku samfélagi, litlu samfélagi þar sem líka hefur verið viðvarandi verkefni að byggja upp traust á fjármálakerfinu sem auðvitað verður fyrir áfalli þegar við lesum þessa skýrslu.“

Var þetta tekið fyrir á ríkistjórnarfundi?

„Nei, þetta er í raun og veru bara kynnt með þeim rétta hætti sem er gert, ríkisendurskoðun skilar skýrslunni til Alþingis enda er þetta stofnun alþingis og við erum öll búin að kynna okkur hana frá því hún var kynnt opinberlega í gær.“

Aðspurð hvort að salan hafi haft áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið segir Katrín ekki svo vera. „Ég held að það sem er jákvætt við þetta er að þessi skýrsla er góð og hún gefur okkur góðan grunn til að kafa dýpra ofan í málið og það er það sem stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd mun gera. Það er ákveðnum spurningum sem er ósvarað en þær heyra flestar undir Seðlabankann sem er sömuleiðis að vinna að sinni eigin skoðun á því sem gerist í ferlinu hvað varðar aðkomu söluráðgjafa og aðkomu Íslandsbanka,“ segir Katrín.

„En stóra málið fyrir mér er að þetta fyrirkomulag sem við höfum haft hvað varðar Bankasýsluna, ég tel alveg einsýnt að það þurfi að skoða þetta fyrirkomulag og breyta því. Það verða næstu skref, þegar í raun og veru allri rýni á þessari skýrslu og þeirri næstu verði lokið.“