Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir niðurstöðu MDE nú mun skýrari en þá fyrri í Landsréttarmálinu. Hún segist ekki sjá eftir því að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leita til yfirréttarins, og segist ekki telja niðurstöðuna setja Landsrétt á hliðina.
„Í stuttu máli sýnist mér þetta vera samhljóða niðurstaða og dómurinn kveður á um alvarlega annmarka við skipan fjögurra dómara og það er mjög skýr niðurstaða þessa dóms, ólíkt fyrri dómi, sem mátti túlka með ólíkum hætti,“ segir Katrín. Hún tekur fram að hún hafi ekki lesið dóminn, það þurfi að sitja vel og vandlega yfir honum.
„Þarna snýst þessi túlkun um þessa fjóra dómara. En auðvitað er töluverð gagnrýni í dómnum, ekki bara á fyrrverandi ráðherra heldur líka Alþingi og hæstarétt og það hefur þó ekki áhrif á það að þetta snýst fyrst og fremst um þessa fjóra,“ segir Katrín.
„En það kemur líka fram að þrjú af þessum fjórum hafi nú sagt embættum sínum lausum og sótt um ný embætti sem hafa losnað og gengið í gegnum nýtt ferli. Það er engin athugasemd gerð við það í dómnum, þannig ég tel ekki að þetta setji Landsrétt á hliðina, hann er bara áfram starfhæfur,“ segir forsætisráðherra.
„Og ennfremur vekur athygli mína að það er ekki nein krafa um endurupptöku mála í þessum dómi, eins og ég skil það. Að vísu vill það nú svo til að við erum að stofnsetja endurupptökudómstól í lögum í dag þó hann verði ekki starfhæfur fyrr en eftir áramót þegar lokið hefur verið við skipan í hann en það breytir því ekki að auðvitað geta allir leitað til hans,“ segir hún.
Var það rétt ákvörðun að leita til yfirréttarins?
„Mér fannst það málefnanleg ákvörðun á sínum tíma í ljósi þess að dómurinn var ekki einróma í fyrri úrskurði og hann var opinn fyrir túlkun. Svo ég tel þessa niðurstöðu miklu skýrari.“