Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG segist ekki hafa íhugað að stíga til hliðar eða draga sig út úr ríkisstjórnarsamstarfinu þótt fylgi flokksins mælist á hraðri niðurleið.
Fylgi VG mældist aðeins 7,2% í þjóðarpúlsi Gallup um helgina. Katrín bendir á að fylgi VG hafi rokkað allt frá 5 prósentum og upp í 30 prósent í könnunum síðastliðin ár. Hún sjái ekki að fylgiskannanir sem hafi mælt dvínandi fylgi séu tilefni sérstakrar vendingar nú eða bráðaviðbragða.
„Þessi mæling segir okkur hins vegar að við stöndum frammi fyrir spurningum um samskipti okkar við kjósendur,“ segir Katrín og er á henni að skilja að hugað verði að breytingum í þeim efnum.
Forsætisráðherra segir meiri þörf nú en nokkru sinni á að mikilvæg áherslumál VG svo sem mannréttinda- og loftslagsmál fái vægi, ekki síst í ljósi bakslags í þeim efnum á alþjóðavísu.
Spurð hvort mælingin kunni að sýna að þeir sem hafi stutt flokkinn séu orðnir þreyttir á að flokkur sem kenni sig við vinstri bakki upp álitamál í áherslum hægri samstarfsflokks, svo sem við Íslandsbankasöluna, svarar Katrín að ýmsar stöður komi upp þegar ólíkir flokkar séu saman í ríkisstjórn.