Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra og for­maður VG segist ekki hafa í­hugað að stíga til hliðar eða draga sig út úr ríkis­stjórnar­sam­starfinu þótt fylgi flokksins mælist á hraðri niður­leið.

Fylgi VG mældist að­eins 7,2% í þjóðar­púlsi Gallup um helgina. Katrín bendir á að fylgi VG hafi rokkað allt frá 5 prósentum og upp í 30 prósent í könnunum síðast­liðin ár. Hún sjái ekki að fylgi­skannanir sem hafi mælt dvínandi fylgi séu til­efni sér­stakrar vendingar nú eða bráða­við­bragða.

„Þessi mæling segir okkur hins vegar að við stöndum frammi fyrir spurningum um sam­skipti okkar við kjós­endur,“ segir Katrín og er á henni að skilja að hugað verði að breytingum í þeim efnum.

For­sætis­ráð­herra segir meiri þörf nú en nokkru sinni á að mikil­væg á­herslu­mál VG svo sem mann­réttinda- og lofts­lags­mál fái vægi, ekki síst í ljósi bak­slags í þeim efnum á al­þjóða­vísu.

Spurð hvort mælingin kunni að sýna að þeir sem hafi stutt flokkinn séu orðnir þreyttir á að flokkur sem kenni sig við vinstri bakki upp á­lita­mál í á­herslum hægri sam­starfs­flokks, svo sem við Ís­lands­banka­söluna, svarar Katrín að ýmsar stöður komi upp þegar ó­líkir flokkar séu saman í ríkis­stjórn.