Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að það eigi eftir að útfæra útboðið fyrir nýju þjóðarhöllinni en býst við að það verði mikill áhugi á verkefninu.

Eins og kom fram á vef Fréttablaðsins í dag voru næstu skref að fimmtán milljarða þjóðarhöll tilkynnt í dag og standa vonir til þess að hægt verði að fara í útboð á verkefninu á næstu vikum og að því verði lokið í árslok 2025.-

Aðspurð hvort að það yrði einhver sérstakur hvati fyrir íslensk fyrirtæki í útboðinu sagðist Katrín ekki geta sagt það eins og staðan væri.

„Það er framundan að ákveða hvernig þetta verður útfært og ég hugsa að það verði mikill áhugi á þessu verkefni. Það mun koma í ljós.“