„Ég samgleðst Erlu Bolladóttur vegna niðurstöðu héraðsdóms á þriðjudaginn og sú ákvörðun hefur verið tekin eftir samráð mitt og dómsmálaráðherra að ríkið mun ekki áfrýja þessari niðurstöðu til Landsréttar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Með úrskurðinum sem héraðsdómur felldi úr gildi á þriðjudaginn var Erlu synjað um endurupptöku á hennar þætti í Guðmundar- og Geirfinnsmálum í febrúar 2017. Hún er sú eina af þeim sex einstaklingum sem hlutu dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum árið 1980, sem ekki hefur fengið mál sitt endurupptekið.
Leita leiða til flýtimeðferðar málsins
Katrín segir það vilja ríkisins að endanleg niðurstaða fáist í þessi mál sem fyrst og til skoðunar séu leiðir til að koma málinu í flýtimeðferð hjá endurupptökudómi með það fyrir augum.
„Ef málið kemst fyrir Hæstarétt myndi ég telja að það ætti að vera þar í algerum forgangi,“ segir Katrín.
„Ef málið kemst fyrir Hæstarétt myndi ég telja að það ætti að vera þar í algerum forgangi.“
Þá segir Katrín dóma Landsréttar fyrir jólin og nú dómur Erlu, sýna að dómstólaleiðin geti í sjálfu sér orðið mikilvægt lóð á vogarskálarnar í lúkningu þessara mála.
„Ég myndi halda að þessir dómar bæði Landsréttar í lok síðasta árs og nú þessi dómur í máli Erlu þýði að við séum að færast nær lúkningu á þessum málum,“ segir hún og vísar sérstaklega til dómsorða framkominna dóma og viðurkenningarinnar sem í þeim felst.
„Þessi dómstólaleið er þannig í raun hluti af uppgjöri málsins,“ segir hún.
Um þau orð Ragnars Aðalsteinssonar, lögmanns Erlu, að ríkið gangi strax til samninga um bætur segir Katrín: „Það er auðvitað sá munur á málum Erlu annars vegar og hinna að í máli Erlu liggi ekki fyrir sýknudómur og út frá gildandi lögum er er örðugt um vik að bjóða fram bætur meðan dómur um sök fyrir rangar sakargiftir liggur óhaggaður.“
Af þessari ástæðu leggur Katrín þess í stað áherslu á að leitað verði leiða til að flýta málinu eins og kostur er, fyrst hjá endurupptökudómi og svo hjá Hæstarétti.
Með úrskurðinum sem felldur var úr gildi á þriðjudag synjaði endurupptökunefnd Erlu um endurupptöku á hennar þætti í Guðmundar- og Geirfinnsmálum í febrúar 2017. Hún er sú eina af þeim sex einstaklingum sem hlutu dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum árið 1980, sem ekki hefur fengið mál sitt endurupptekið.
Mál hennar fer því til endurupptökudóms til nýrrar meðferðar og úrskurðar um hvort skilyrði eru fyrir því að endurupptaka hennar þátt í Geirfinnsmálinu.
Dómurinn gefur leiðbeiningu um endurpptöku
Í forsendum hins nýuppkveðna dóms héraðsdóms er þó að finna nokkuð skýrar leiðbeiningar réttarins um endurupptökuna en þar segir meðal annars:
„Liggur því að mati dómsins ekki lengur ljóst fyrir að sakfelling stefnanda í dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/1978 teljist styðjast við næg sönnunargögn sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum og hafi því borið að heimila endurupptöku á máli hennar.“
Þessar forsendur verða ekki skyldar öðru vísi en svo að héraðsdómur telji skilyrði til endurupptöku uppfyllt og því beri að endurupptaka málið.
Grundvöllur sakfellingar brostinn
Erla var dæmd í Hæstarétti árið 1980 fyrir rangar sakargiftir með því að hafa sammælst um það með Kristjáni Viðari Júlíussyni og Sævari Marínó Ciesielski að þau myndu bera sakir á fjóra menn, kennda við skemmtistaðinn Klúbbinn, færu spjótin að beinast að þeim sjálfum vegna hvarfs Geirfinns Einarssonar.
Í forsendum hins nýuppkveðna héraðsdóms segir að mat endurupptökunefndar á áliti réttarsálfræðinga og skýrslum sem þeir gáfu um álit sitt, hafi ekki verið forsvaranlegt.
Byggt var á niðurstöðum réttarsálfræðinganna í málum annarra sakborninga en í máli Erlu dugði ekki álit þeirra um að játningar Erlu væru óáræðanlegar.
Í dóminum segir að niðurstöður réttarsálfræðingana, „hljóti að hafa þýðingu við mat á því hvort sönnunargögn hafi hér verið rangt metin, eins og gilt hafi um aðra þætti málsins.“
„Telur dómurinn þó að þegar á allt er litið þá sé málum nú svo komið að stefnandi verði að njóta vafans.“
Þá segir einnig að sakfelling Erlu fyrir fyrir rangar sakargiftir, verði vart byggð á sama grunni og dómurinn yfir henni árið 1980 gerði, en þar er byggt á játningum um samantekin ráð sakborninga um að bera rangar sakir á menn, færi grunur að beinast að þeim sjálfum. „En af hálfu endurupptökunefndar virðist ekki gerð viðhlítandi grein fyrir þýðingu þessa.“
Þá fullyrðir dómurinn að framburðir Erlu og annarra um ferð til Keflavíkur og nafngreinda menn þar, séu ráðgáta, það er að segja hvernig þær frásagnir urðu til og tóku svo breytingum.
„Telur dómurinn þó að þegar á allt er litið þá sé málum nú svo komið að stefnandi verði að njóta vafans,“ segir í dóminum.