Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna funduðu í dag í Samhæfingarmiðstöð almannavarna. Hún segir að verið sé að vakta mannaferðir og gasmengun.

„Á dögum eins og þessum er dýrmætt að finna hvernig allir okkar viðbragðsaðilar á ólíkum stöðum vinna saman sem einn hugur. Eldgosið sem hófst í dag kom sem betur fer upp fjarri byggð. Verið er að vakta bæði mannaferðir og gasmengun og allir ferlar hafa virkað sem skyldi. “ skrifar Katrín á Facebook-síðu sinni. 

Forsætisráðherra bendir á að ekki sé um að ræða fyrsta fund þeirra þar sem mikið hafi verið að gera hjá viðbragðsaðilum síðustu ár.

„Eftir sem áður þurfum við öll að sýna ábyrgð, fylgjast með upplýsingum og varnaðarorðum. Sýnum aðgát því gasið sem leggur frá eldgosinu getur verið hættulegt og meira gas leggur frá gosinu nú en í fyrra. Ég hitti Víði Reynisson í Samhæfingarmiðstöð almannavarna núna áðan - einu sinni sem oftar - enda hefur ekki lítið mætt á öllum okkar góðu viðbragðsaðilum undanfarin misseri og ár. Það er mikil gæfa fyrir samfélagið að eiga slíkt lið.“