Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að fulltrúar VG í borginni þurfi nú að stokka spilin og meta stöðu sína upp á nýtt í ljósi þess að meirihlutinn er fallinn. Fréttablaðið náði tali af Katrínu í Efstaleitinu til þess að kanna viðbrögð hennar við niðurstöðu sveitarstjórnarkosninganna. Aðspurð hvað hún hafi að segja um fylgi VG heilt yfir landið bendir Katrín á fínan árangur víða út um land í Norðurþingi, Múlaþingi, Skagabyggð, Borgarbyggð og Akureyri.

Hún viðurkennir þó að flokkurinn hefði „viljað uppskera meira hérna á höfuðborgarsvæðinu þar sem við eru í raun bara með einn fulltrúa í Reykjavík annars vegar og fulltrúa í sameiginlegu framboði í Garðabæ.“ Þá segir Katrín ljóst að fram undan þurfi flokkurinn að vinna að því byggja flokkinn upp á sveitarstjórnarstiginu á höfuðborgarsvæðinu.

Aðspurð hvort að flokkurinn eigi aftur erindi í meirihluta í borginni segir Katrín það vera ákvörðun þeirra sem fara með framboðið í Reykjavík. „Það er alveg ljóst að meirihlutinn í borginni, núverandi, er fallinn og það þarf að stokka spilin upp á nýtt. Það er bara ný staða uppi og okkar fólk þarf bara að meta stöðuna út frá þessum niðurstöðum.“ Segir Katrín og viðurkennir að það séu vonbrigði fyrir flokkinn að hafa uppskorið svona lítið fyrir þær áherslur sem hann náði fram í meirihlutasamstarfinu.

Spurð að því hvort hún telji landsmálin hafa haft áhrif á gengi flokksins segir Katrín erfitt að segja til um hvort þau haft teljandi áhrif á niðurstöðurnar.

„Við sjáum það til að mynda bara í skoðanakönnunum í landsmálum þá stöndum við ágætlega. Þannig það er erfitt að draga slíkar ályktanir en auðvitað hafa þau alltaf einhver áhrif. Mín tilfinning eftir svona ferðalag um landið var að málefnin sem var verið að ræða voru staðbundin, nema kannski húsnæðismálin sem voru alls staðar og mjög ofarlega á baugi.“

Þrátt fyrir slakt gengi í borginni segist Katrín sjá ýmsa ljósa punkta í þessum kosningum. Flokkurinn hafi bætt við sig manni af hreinum V-lista og þónokkrum fulltrúum blönduðum framboðum. Þá segist Katrín vera „sérstaklega ánægð með Ísafjörð þar sem við eigum tvo fulltrúa og Ísafjarðarlistinn vinnur meirihluta“.