Engar fjárhæðir eru tilteknar í frumvarpi forsætisráðherra um bætur til þeirra sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálum í fyrra. Í frumvarpinu, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er kveðið á um heimild ráðherra til að greiða hinum sýknuðu sanngirnisbætur. Í athugasemdum við frumvarpið segir að í viðræðum hafi verið rætt um heildarfjárhæð á bilinu 700 til 800 milljónir en fjárhæðin kunni þó að taka einhverjum breytingum eftir framgangi samninga.

Gert er ráð fyrir að viðræður eigi sér stað við hlutaðeigandi undir handleiðslu forsætisráðherra samhliða framlagningu frumvarpsins og umfjöllun um það á Alþingi.

Heimild ráðherra til að semja um bætur á grundvelli frumvarpsins, verði það að lögum, fellur úr gildi 30. júní 2020.

Í greinargerð er einnig vikið að öðrum atriðum sem lúta að uppgjöri málsins, úrbótum á löggjöf, fræðslu og vistun skjala hjá hinu opinbera. Þau atriði verði tekin til nánari skoðunar hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum.

Bæturnar verði skattfrjálsar

Miðað er við að bæturnar verði skattfrjálsar. Samkvæmt frumvarpinu munu bætur til þeirra fimm sem það tekur til byggja á sama grundvelli, það er bæði til þeirra þriggja sem enn eru á lífi og aðstandenda þeirra tveggja sem látnir eru. Þá er gert ráð fyrir að greiðslur til eftirlifandi maka og barna í tilfelli þeirra sem látnir eru, skiptist jafnt þannig að sama fjárhæð kommi í hlut hvers og eins. Þetta er breyting frá þeirri stefnu sem höfð var í samningaviðræðunum, þar sem miðað var við að fjárhæðir tækju mið af fjölda daga sem hver og einn sætti frelsissviptingu.

Eins og fram hefur komið er kveðið á það í greinargerð með frumvarpinu að greiðsla bóta samkvæmt frumvarpinu, komi ekki í veg fyrir að frekari bóta verði krafist fyrir dómstólum.

Í greinargerðinni segir að lagasetning sé nauðsynleg vegna réttarstöðunnar sem risið hafi af sýknudóminum. Málið sé fordæmalaust og kalli á aðkomu Alþingis. Með frumvarpinu sé mælt fyrir um sérstaka leið, sniðinni að þessu tiltekna máli, vegna sérstöðu þess meðal annars vegna hins langa tíma sem liðið hafi og þunga áfellisins gagnvart hinum sýknuðu í öndverðu.

Þá sé frumvarpinu ætlað að tryggja að gætt verði sanngirni og jafnræðis gagnvart öllum hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra.

Frumvarpið á að taka af tvímæli um sáttavilja

Viðurkennt er í athugasemdum að fjárbætur geti í raun aldrei bætt það tjón sem hinir sýknuðu og fjölskyldur þeirra hafi orðið fyrir. Hins vegar sé nauðsynlegt að ríkisvaldið greiði fjárbætur sem hluta af uppgjöri og viðurkenningu á rangindum. Þótt sættir hafi ekki tekist á vettvangi sáttanefndarinnar sé lagaheimild eins og frumvarpið mæli fyrir um eðlileg og nauðsynleg gjörð af hálfu Alþingis, enda óvissa um bótarétt að minnsta kosti sumra þeirra einstaklinga sem það taki til.

Þá sé frumvarpið einnig lagt fram nú til að taka af öll tvímæli um vilja stjórnvalda og Alþingis til að greiða hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra sanngjarnar bætur.

Stóðu í þeirri trú að sátt við flesta lægi fyrir

Vikið er stuttlega að því sáttaferli sem forsætisráðherra boðaði til í kjölfar sýknudómsins í athugasemdum með frumvarpinu.

Sáttanefndin hafi unnið eftir þeirri hugmynd að allir hlutaðeigandi ættu rétt til bóta á sömu forsendum þrátt fyrir mögulega ólíkan rétt til bóta lögum samkvæmt og ekki yrði litið til þátta sem almennt er litið til í bótamálum gegn ríkinu eins og fyrningar.

Á tímabili hafi stjórnvöld staðið í þeirri trú að sátt við flesta aðila lægi fyrir. Það hafi þó ekki gengið eftir og einn hinna sýknuðu hafi nú höfðað mál gegn ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið sé því enn óleyst.

Einnig er vísað til umræðu hjá nefndinni um aðgerðir aðrar en fjárhagslegar sem ríkið gæti stutt við eða stuðlað að. Um væri að ræða aðgerðir sem varði meðal annars þann lærdóm sem draga mætti af málinu og virðingu við hina sýknuðu. Í frumvarpinu segir að þessi atriði verði tekin til nánari skoðunar hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum.

Frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn og úr þingflokkum stjórnarflokkana í gær og verður lagt fram á Alþingi í næstu viku.