Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, setti Arctic Circle 2021, þing Hringborðs norðurslóða, í Hörpu í gær. Ráðstefnan er fyrsta alþjóðlega ráðstefnan sem haldin er í Evrópu, þar sem gestir mæta á staðinn, frá því Covid-faraldurinn hófst.

„Þið eruð þátttakendur í tímamótaviðburði sem sendir skilaboð, ekki aðeins til samfélags norðurslóða heldur alls heimsins, að leikvangur norðurslóða hafi breyst. Þær hafa færst frá því að vera afskekktur og óþekktur hluti plánetunnar yfir í að spila lykilhlutverk í umræðu alþjóðastjórnmála og loftslagsmála,“ sagði Ólafur Ragnar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hélt ræðu við setninguna þar sem hún fjallaði um yfirvofandi ógn af loftslagsbreytingum og neikvæð áhrif þeirra á norðurslóðir. Hún sagði nauðsynlegt að grípa til tafarlausra aðgerða til að bregðast við þessari ógn og lagði áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu í baráttunni.

„Síðasta ágúst sýndi skýrsla IPCC okkur mjög greinilega að ekkert svæði í heiminum er ónæmt fyrir þeim breytingum sem eru að gerast á loftslagi jarðarinnar. Augljóslega er þetta niðurdrepandi byrjun á ræðu og augljóslega eru verstu loftslagssviðsmyndir vísindamanna niðurdrepandi. En er von fyrir framtíðina? Já, það er von, því gjörðir mannkyns hafa orsakað núverandi ástand og gjörðir mannkyns geta bundið enda á þetta ástand,“ sagði Katrín.

Mikill áhugi Bandaríkjanna

Ólafur Ragnar leiddi pallborðsumræður með fulltrúum Bandaríkjastjórnar í málefnum norðurslóða. Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður frá Alaska, David Balton, framkvæmdastjóri norðurslóðanefndar Hvíta hússins, Mike Sfraga, formaður Rannsóknarnefndar Bandaríkjanna á norðurslóðum, og Jim Dehart, fulltrúi utanríkisþjónustu Bandaríkjanna í málefnum norðurslóða, ræddu markmið Bandaríkjamanna og breyttar áherslur þeirra á norðurslóðum.

Ólafur Ragnar leiddi pallborðsumræður.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mur­kowski, sem er Repúblikani, sagði ríka ástæðu til að ítreka mikilvægi fríverslunarsamnings Íslands og Bandaríkjanna fyr­ir rík­is­stjórn Joes Biden Bandaríkjaforseta, sem lið í nýrri norður­slóðastefnu. Að sögn hennar hefur áhugi Bandaríkjamanna á norðurslóðum vaxið gífurlega á síðustu árum. Sagðist hún hafa þurft að æpa mjög hátt til að ná eyrum ráðamanna í þeim málum við upphaf stjórnmálaferils síns.

„Áhugi Banda­ríkj­anna á norður­slóðum hef­ur breyst gjörsamlega frá því að við hóf­um þetta ferðalag,“ sagði hún og vísaði til upp­hafs Hringborðs norðurslóða sem hún hef­ur sótt frá upphafi þess árið 2016.

Ekki kurteisishjal

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, hélt einnig erindi á ráðstefnunni sem hún sagði vera fyrsta alþjóðlega viðburðinn sem hún sækir í eigin persónu frá því í febrúar 2020, áður en Covid „sneri heiminum á hvolf“.

Hún sagði skuldbindingar Skotlands við norðurslóðir ekki byggjast á diplómatísku kurteisishjali heldur raunverulegri nauðsyn.

Að sögn Sturgeon hafa ríkisstjórnir heimsins ekki gert nóg til að uppfylla markmið Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins frá 2015 og lýsti hún Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fer fram í heimabæ hennar Glasgow eftir tvær vikur, sem „mjög áríðandi“.

„Það er oft auðvelt að ýkja mikilvægi svona viðburða en ég held að það séu ekki ýkjur að segja að COP í Glasgow er besti möguleiki heimsins og hugsanlega síðasti möguleiki heimsins til að setja sér þær skuldbindingar sem munu gefa okkur möguleikann á því að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráður,“ sagði hún.