Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins, hefur kært nýafstaðnar Alþingiskosningar til dómsmálaráðuneytisins. Hún greinir sjálf frá þessu inn í hópnum Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá. Í kærunni sakar hún Alþingi um „aðgerðarleysisbrot“ með því að hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2012 um stjórnarskránna.
Þá vill hún einnig meina að hefði nýja stjórnarskráin verið samþykkt væri Alþingi ekki í þeirri „stjórnskipunarlegu klípu“ að þurfa úrskurða um lögmæti kosninga. Atkvæðavægi væri einnig öðruvísi. Hún telur þjóðina svikna og vill ógilda kosningarnar.
„Ég er heldur betur búin að sinna lýðræðislegum skyldum mínum sem borgari þessa lands í dag enda lagði ég fram 14 blaðsíðna kæru vegna alþingiskosninganna til dómsmálaráðuneytisins um þrjúleytið,“ skrifar Katrín.
Í færslunni birtir Katrín búta úr kærunni þar sem hún vitnar meðal annars í Björg Thorarensen, dómara og prófessor í stjórnskipunarrétti.
„Vilji stjórnarskrárgjafans hefur verið áréttaður“
„Hugmyndin um beint lýðræði tengist öðrum undirstöðum stjórnskipunarinnar, einkum sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar. Með því er viðurkennt að þótt stjórnskipunin sé reist á fulltrúalýðræði skuli þjóðin taka beina og milliliðalausa afstöðu til tiltekinna mála, sem lúta að mikilvægum hagsmunum eða um ákveðin mál, svo sem stjórnarskrárbreytingar, enda sé þjóðin sjálf stjórnarskrárgjafinn.“ (áherslubreyting kæranda),“ skrifar Katrín.
Í þessu samhengi er mikilvægt að árétta að ef önnur leið en ógilding er valin hefur Alþingi með aðgerðaleysi sínu á framfylgni við vilja stjórnarskrárgjafans aukið á alvarleika brotsins gegn MSE, segir Katrín enn fremur.
Hún segir að um sé að ræða aðgerðaleysisbrot sem felst í því að hunsa niðurstöðu lögmætrar þjóðaratkvæðagreiðslu frá 20. október 2012.
„Vilji stjórnarskrárgjafans hefur verið áréttaður frá þjóðaratkvæðagreiðslunni, til dæmis þann 20. október 2020 þegar forsætisráðherra Íslands voru afhentar 43.423 staðfestar undirrskriftir kjósenda sem kröfðust þess að Alþingi virti niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.“

Fyrirkomulagið í andstöðu við frumvarp stjórnlagaráðs
Katrín vill meina að hefði nýja stjórnarskráin verið lögfest væri Alþingi ekki í þeirri stjórnskipunarlegu klípu að þurfa að úrskurða sjálft um lögmæti sitt.
Þá vill Katrín einnig meina að Alþingi hafi ekki sinnt stjórnarskrárbundinni skyldu sinni hvað varðar leiðréttingu á misvægi atkvæða. „Alþingi hefur því viðhaldið óhóflegum og ómálefnalegum völdum sínum til þess að úrskurða um lögmæti eigin kosninga með því að virða að vettugi vilja stjórnarskrárgjafans. Eykur þessi sök Alþingis mjög á alvarleika þeirrar stöðu sem upp er komin.“
„Fyrir vikið vega atkvæði í Norðvesturkjördæmi u.þ.b. tvöfalt á við atkvæði í kjördæmum á borð við Kragann. Aukið vægi atkvæða í Norðvesturkjördæmi þýðir aukin áhrif niðurstöðu þess kjördæmis á landið í heild og fyrir vikið aukin áhrif af annmörkum á framkvæmd kosninga í kjördæminu fyrir landið í heild. Ójafnt vægi atkvæða þýðir einnig að tilteknir stjórnmálaflokkar, í þessu tilfelli Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, fá 29 þingsæti í stað 26 sem myndi endurspegla prósentutölu þeirra kjósenda sem völdu framboð þessara flokka,“ skrifar Katrín.
Hún vill meina að þetta fyrirkomulag sé í andstöðu við frumvarp stjórnalagaráðs.

Ætlar alla leið til MDE
Katrín segir að lokum að kæran sé byggð upp þannig að hún geti farið alla leið til Mannréttindadómstólsins gerist þess þörf.
„Í henni er sérstakur kafli sem ber yfirheitið "stjórnmálatengsl." Stundum er ég við það að missa trúnna á því að við getum lagað allt fúskið og spillinguna sem viðgengst á okkar fallegu eyju, en það er víst ekkert annað að gera en að halda bara áfram að reyna að pota blessuðu kerfinu í rétta átt.“