Katrín Odds­dóttir, mann­réttinda­lög­fræðingur og for­maður Stjórnar­skrár­fé­lagsins, hefur kært ný­af­staðnar Al­þingis­kosningar til dóms­mála­ráðu­neytisins. Hún greinir sjálf frá þessu inn í hópnum Sam­tök kvenna um nýja stjórnar­skrá. Í kærunni sakar hún Al­þingi um „að­gerðar­leysis­brot“ með því að hunsa þjóðar­at­kvæða­greiðsluna árið 2012 um stjórnar­skránna.

Þá vill hún einnig meina að hefði nýja stjórnar­skráin verið sam­þykkt væri Al­þingi ekki í þeirri „stjórn­skipunar­legu klípu“ að þurfa úr­skurða um lög­mæti kosninga. At­kvæða­vægi væri einnig öðru­vísi. Hún telur þjóðina svikna og vill ó­gilda kosningarnar.

„Ég er heldur betur búin að sinna lýð­ræðis­legum skyldum mínum sem borgari þessa lands í dag enda lagði ég fram 14 blað­síðna kæru vegna al­þingis­kosninganna til dóms­mála­ráðu­neytisins um þrjú­leytið,“ skrifar Katrín.

Í færslunni birtir Katrín búta úr kærunni þar sem hún vitnar meðal annars í Björg Thoraren­sen, dómara og prófessor í stjórn­skipunar­rétti.

„Vilji stjórnar­skrár­gjafans hefur verið á­réttaður“

„Hug­myndin um beint lýð­ræði tengist öðrum undir­stöðum stjórn­skipunarinnar, einkum sjálfs­á­kvörðunar­rétti þjóðarinnar. Með því er viður­kennt að þótt stjórn­skipunin sé reist á full­trúa­lýð­ræði skuli þjóðin taka beina og milli­liða­lausa af­stöðu til til­tekinna mála, sem lúta að mikil­vægum hags­munum eða um á­kveðin mál, svo sem stjórnar­skrár­breytingar, enda sé þjóðin sjálf stjórnar­skrár­gjafinn.“ (á­herslu­breyting kæranda),“ skrifar Katrín.

Í þessu sam­hengi er mikil­vægt að á­rétta að ef önnur leið en ó­gilding er valin hefur Al­þingi með að­gerða­leysi sínu á fram­fylgni við vilja stjórnar­skrár­gjafans aukið á al­var­leika brotsins gegn MSE, segir Katrín enn fremur.

Hún segir að um sé að ræða að­gerða­leysis­brot sem felst í því að hunsa niður­stöðu lög­mætrar þjóðar­at­kvæða­greiðslu frá 20. októ­ber 2012.

„Vilji stjórnar­skrár­gjafans hefur verið á­réttaður frá þjóðar­at­kvæða­greiðslunni, til dæmis þann 20. októ­ber 2020 þegar for­sætis­ráð­herra Ís­lands voru af­hentar 43.423 stað­festar undir­r­skriftir kjós­enda sem kröfðust þess að Al­þingi virti niður­stöðu þjóðar­at­kvæða­greiðslunnar.“

Katrín birti þessa mynd af sér fyrir utan ráðuneytið í dag.
Ljósmynd/Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá

Fyrirkomulagið í andstöðu við frumvarp stjórnlagaráðs

Katrín vill meina að hefði nýja stjórnar­skráin verið lög­fest væri Al­þingi ekki í þeirri stjórn­skipunar­legu klípu að þurfa að úr­skurða sjálft um lög­mæti sitt.

Þá vill Katrín einnig meina að Al­þingi hafi ekki sinnt stjórnar­skrár­bundinni skyldu sinni hvað varðar leið­réttingu á mis­vægi at­kvæða. „Al­þingi hefur því við­haldið ó­hóf­legum og ó­mál­efna­legum völdum sínum til þess að úr­skurða um lög­mæti eigin kosninga með því að virða að vettugi vilja stjórnar­skrár­gjafans. Eykur þessi sök Al­þingis mjög á al­var­leika þeirrar stöðu sem upp er komin.“

„Fyrir vikið vega at­kvæði í Norð­vestur­kjör­dæmi u.þ.b. tvö­falt á við at­kvæði í kjör­dæmum á borð við Kragann. Aukið vægi at­kvæða í Norð­vestur­kjör­dæmi þýðir aukin á­hrif niður­stöðu þess kjör­dæmis á landið í heild og fyrir vikið aukin á­hrif af ann­mörkum á fram­kvæmd kosninga í kjör­dæminu fyrir landið í heild. Ó­jafnt vægi at­kvæða þýðir einnig að til­teknir stjórn­mála­flokkar, í þessu til­felli Sjálf­stæðis­flokkur og Fram­sóknar­flokkur, fá 29 þing­sæti í stað 26 sem myndi endur­spegla prósentu­tölu þeirra kjós­enda sem völdu fram­boð þessara flokka,“ skrifar Katrín.

Hún vill meina að þetta fyrir­komu­lag sé í and­stöðu við frum­varp stjórna­laga­ráðs.

Katrín hefur verið ötull baráttumaður fyrir nýju stjórnarskránni.

Ætlar alla leið til MDE

Katrín segir að lokum að kæran sé byggð upp þannig að hún geti farið alla leið til Mann­réttinda­dóm­stólsins gerist þess þörf.

„Í henni er sér­stakur kafli sem ber yfir­heitið "stjórn­mála­tengsl." Stundum er ég við það að missa trúnna á því að við getum lagað allt fúskið og spillinguna sem við­gengst á okkar fal­legu eyju, en það er víst ekkert annað að gera en að halda bara á­fram að reyna að pota blessuðu kerfinu í rétta átt.“