Hin 103 ára gamla Helga Guð­munds­dóttir í Bolungar­vík hélt upp á 103 ára af­mælið sitt í gær, þann 17. maí. Hún fékk blóm­vönd frá Katrínu Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra, en einungis eru ellefu dagar síðan Helga varð elsta manneskjan á Ís­landi til að jafna sig á CO­VID-19 smiti.

Helga er jafn­framt elsti í­búinn á Ís­landi og þá hefur enginn Bol­víkingur náð jafn háum aldri og hún. Þetta er ekki fyrsti heims­far­aldurinn sem Helga upp­lifir, eins og Frétta­blaðið greindi frá á dögunum, því Helga gekk einnig í gegnum spænsku veikina á sínum tíma.

Þá smitaðist Helga af berklum þegar sonur hennar var tveggja vikna gamall og varð hún því að fara suður á berkla­hæli. Ljóst er því að Helga hefur staðið ó­trú­lega margt af sér, heims­far­aldra, berkla og tvær heims­styrj­aldir.

Í síðustu viku birtist við­tal við Helgu í vef­riti UN­RIC (Upp­lýsinga­skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna). „Ég hef upp­­lifað það allt, er það ekki?“ spyr hún.

Haft er eftir Agnesi Veroniku Hauks­dóttur, barna­barni Helgu, að hún hafi óttast mjög um ömmu sína þegar veikindin komu upp.

„Þegar hún var kom­in með 38 stiga hita hugsaði ég: Þetta er búið. En hún var síðan bara rúm­­liggj­andi í einn dag, þó að henni hafi orðið illt í mag­an­um. Hún er svo hörð af sér að hún neyddi sig til að halda á­fram að drekka,“ segir Agnes.

„En hún er svo já­­kvæð mann­eskja, sí­hlæj­andi, og ég er viss um að það hafi skipt máli við að kom­ast í gegn­um þetta.“