Katrín Jakbosdóttir, forsætisráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið að hún sé sleginn yfir snjóflóðunum á Vestfjörðum í gærkvöldi. Á næstu dögum verði farið yfir stöðu mála varðandi snjóflóðagarða og aðra ferla varðandi snjóflóðavarnir. Hún segist ekki hafa fengið það staðfest hvers vegna flætt hafi yfir varnargarðinn.

Fyrst og fremst sé það þó mikil mildi að ekkert manntjón hafi orðið. „Og mikil blessun að það náðist að grafa þessa ungu stúlku upp hratt og örugglega.“ Ljóst sé að ef snjóflóðavarnargarðsins hafi ekki notið við hefðu snjóflóðin endað verr.

Katrín segir að hún hafi fylgst með vel með í morgun og meðal annars farið á fund í samhæfingarmiðstöðinni þar sem farið var yfir stöðu mála. „En við erum bara í miðju veðrinu," segir hún. Viðbragðsaðilar séu enn að störfum og beðið eftir birtingu til að skoða tjón og stærð flóðsins.

Aðspurð hvort að mál varðandi snjóflóðavarnagarða verði skoðuð í ljósi þess að flætt hafi yfir þá segir hún að öll mál verði skoðuð.

„Það verður að sjálfsögðu farið yfir alla ferla og allt og sömuleiðis það. Það er ekki búið að staðfesta við mig hvort að það hafi komið rof í garðinn eða þetta bara farið yfir. En það verður auðvitað farið yfir þetta núna þegar það er orðið bjart.“

Á fundi síðar í dag muni ráðherrar fá skýrslugjöf og þá verði farið betur yfir stöðu mála.

Katrín segir það hafa reynst mikilvægt að varðskipið Þór hafi verið staðsett á Vestfjörðum, en það var í viðbragðsstöðu á Ísafirði vegna slæms veðurs á Vestfjörðum.

Fyrst og fremst rifji atburðirnir þó upp sára reynslu og íbúar sem hún hafi heyrt í séu slegnir.

„Auðvitað er maður bara sleginn. Ég er auðvitað búin að heyra í fólki fyrir vestan og þetta rifjaði bara upp snjóflóðið 1995.“