„Þótt ég skilji þörf fólks fyrir skýr svör um hvað verður, er mikilvægt að við fáum andrými til að meta stöðuna núna,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um þá stöðu sem nú er komin upp í faraldrinum. Tillögur um frekari aðgerðir en þær sem ákveðnar voru á mánudag eru ekki komnar á borð ríkisstjórnarinnar en ráðherrar eiga daglegt samráð við sóttvarnayfirvöld.

„Ég held að fólk skilji mjög vel að það eru engin endanleg svör í þessum faraldri. En við erum auðvitað ekki á sama stað og við vorum í upphafi þriðju bylgju, þess vegna er ekki hægt að draga bara sömu aðgerðir upp úr poka,“ segir Katrín og vísar til þess að nú sé þjóðin bólusett og í stöðu ólíkri þeirri sem flest önnur ríki búa við hvað varðar hátt hlutfall bólusettra.

„Við erum þannig að reyna það sem þjóð hvernig bóluefnin virka, en það fylgir því að vera fremstur í röðinni að enginn annar hefur neina forskrift fyrir okkur. Við þurfum sjálf að vega og meta stöðuna sem er það sem okkar góða vísindafólk er að gera.“

Katrín segir þó fylgst með öðrum þjóðum sem gengið hefur vel að bólusetja, til hvaða aðgerða sé verið að grípa og hvernig þær gangi. Hún segir þessa fjölgun smita að einhverju leyti koma á óvart en á móti komi að sjá að alvarleg veikindi séu ekki farin að gera vart við sig, en bólusetningunni hafi meðal annars verið ætlað að koma í veg fyrir þau.

Aðspurð um stjórnarsamstarfið í aðdraganda kosninga og samstöðu í baráttu við faraldurinn segist Katrín nálgast faraldurinn þannig að skynsamlegustu ákvarðanirnar séu teknar á hverjum tíma. Hún tekur dæmi um ákvörðun ríkisstjórnarinnar á mánudag.

Þá hafi verið skynsamlegt að líta til landamæranna eftir mat á stöðunni sem uppi var. „Ábyrgð okkar er að stýra þessu farsællega áfram og kosningar mega ekki hafa áhrif á það. Það er á okkar ábyrgð að tryggja það,“ segir Katrín.