Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands ræddi um baráttu Íslands við COVID-19 í viðtali við blaðamanninn og sjónvarpskonuna Katie Couric í gær en viðtalið er hluti af TIME 100 Talks: Finding Hope þar sem leiðtogar á mismunandi sviðum deila þeirra hugmyndum til að sigrast á COVID-19 heimsfaraldrinum.

Meðal þess sem Katrín ræddi í viðtalinu voru aðgerðir stjórnvalda þegar kemur að efnahagslífinu, áhrif faraldursins á ferðamannaiðnaðinn, loftlagsmál, og þann árangur sem hefur náðst í baráttunni við COVID-19.

„Við byrjuðum undirbúning okkar frekar snemma í rauninni en þetta er eitthvað sem við höfum sífellt verið að vinna að, við erum alltaf að læra,“ sagði Katrín um velgengni Íslands og vísaði til fjölda fólks sem hefur farið í skimun fyrir veirunni, starf smitrakningarteymisins og fjölda fólks sem sett hefur verið í sóttkví.

Hógværð lykilþáttur í velgengni

Aðspurð um hvernig lífið sé á Íslandi á tímum faraldursins greinir Katrín frá því að verulega fá smit hafi greinst í mánuðinum og að unnið sé að því að aflétta takmörkunum. Líkt og áður hefur verið greint frá hafa aðeins fimm smit greinst í maí þrátt fyrir að rúmlega níu þúsund sýni hafi verið tekin.

Hátt í 60 þúsund sýni hafa verið tekin til greiningar hér á landi.
Skjáskot/covid.is

„Við erum enn þá að taka mörg sýni, við erum enn að rekja ný smit, þrátt fyrir að þau séu ekki mörg, við erum enn að beita sóttkví og við viðhöldum fjarlægðarmörkum,“ sagði Katrín og tók fram að enn væri fylgst náið með faraldrinum þrátt fyrir að tiltölulega fá smit hafi greinst.

Katrín segir að hógværð og að hlusta á vísindin hafa verið lykilatriði í baráttunni við COVID-19. „Ég held að það sem við höfum öll lært af þessu er að leggja sjálfsálit þitt sem stjórnmálamaður til hliðar og draga lærdóm frá vísindamönnum,“ sagði Katrín.

„Ég held að það stærsta sem við höfum lært af þessum faraldri er að við vitum aldrei hvaða áskoranir bíða okkar og þú þarft alltaf að vera tilbúinn til að læra allt upp á nýtt þegar þú færð svona áskorun,“ sagði Katrín að lokum. 

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan: