Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sakaði stjórnarflokkana um að versla með „lífsrétt ófæddra barna“ í fyrirspurn sinni sem hann beindi að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Fyrirspurnin sneri að þungunarrofsfrumvarpinu en atkvæðagreiðsla verður um frumvarpið á þinginu í dag.

Birgir sagði málið viðkvæmt og umdeilt í þjóðfélaginu og ekki hafa fengið fullnægjandi umræðu innan nefndar. Hann benti á að Siðfræðistofnun og Þroskahjálp hefðu lagt til að málinu yrði frestað og fengi meiri umræðu í samfélaginu og spurði þá forsætisráðherra hvort hún væri tilbúin í breiðari og samfélagslegri sátt í málinu.

Katrín þakkaði Birgi fyrir fyrirspurnina í andsvari sínu og sagðist bera fulla virðingu fyrir því að þetta væri mál sem risti djúpt hjá mörgum. Hún sagði þó vinnulag frumvarpsins hafa verið eðlilegt og að málið hefði verið í nokkur ár til umfjöllunar og skoðunar hjá hinum ýmsu álitahópum.

Birgir tók þá til máls öðru sinni og lét heldur stórar ásakanir falla á hendur stjórnarflokkunum. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa lagt mikið af mörkum til að „stuðla að þeirri sátt sem segja má að hafi ríkt í íslensku samfélagi þegar kemur að þessum viðkvæma málaflokki.“ Þá sagði hann sátt hafa ríkt þar til „háttvirtur heilbrigðisráðherra ákvað að rjúfa þessa sátt upp með rótum.“

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma.

„Fyrirfram vildi ég ekki trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beygt sig í þessu máli til að tryggja stuðning Vinstri grænna við þriðja orkupakkann. Því hefur verið kastað hér fram í umræðunni að hrossakaup af slíku tagi hafi átt sér stað innan vébanda stjórnarflokkanna,“ sagði Birgir. „Það er þyngra en tárum tekið, herra forseti, að lífsréttur ófæddra barna sé ekki meira virtur en raun ber vitni þegar flokkar á borð við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn að ekki sé minnst á þann flokk sem á sæti í ríkisstjórn í fyrsta sinn,“ sagði Birgir loks.

Mikil hróp heyrðust úr þingsal þegar Birgir lét þessi orð falla. Katrín svaraði Birgi og sagði það alrangt að um svona grundvallarmál ættu sér stað hrossakaup af nokkru tagi. „Mér finnst ekki við hæfi að tengja hér allsendis óskild mál. Það frumvarp sem hér liggur frammi er slíkt grundvallarréttindamál og varðar mína pólitísku sannfæringu svo djúpt að það snýst um réttindi kvenna yfir sínum eigin líkama og konur verða aldrei sjálfstæðar fyrr en þær hafa þau fullu réttindi,“ sagði Katrín.

Katrín sagði þá einhverja hafa viljað ganga enn lengra og hafa engin tímamörk á heimild til þungunarrofs og treysta þannig konum til fulls. Þar lægi hennar persónulega afstaða. Að lokum sagðist hún ekki láta segja sér að henni eða samstarfsfólki hennar í ríkisstjórninni myndi detta í hug að fara í einhver hrossakaup með jafn alvarleg mál.