Til hvassra orðaskipta kom á milli fyrrum flokkssystra í þingflokki VG, Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi í dag og ekki laust við að bera keim af persónulegu uppgjöri vegna brottgöngu þingmannsins úr VG.

Rósa Björk gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag stöðu frumvarps umhverfisráðherra Vinstri grænna um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem enn er í meðhöndlun innan umhverfisnefndar þingsins og alls óvíst hvað um verður. Rósa sagði það „eitt helsta baráttumál okkar umhverfisverndarsinna bæði innan og utan þings um áratugaskeið".

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfismálaráðherra

„Það var gleðilegt að sjá blessað frumvarpið koma loksins inn í þingið þremur árum eftir að kveðið var á um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eftir alla vega tveggja ára samráðsvinnu og kynningarferli um allt land," sagði Rósa og rifjaði svo upp orð forystumanna í ríkisstjórninni. „Það eru því gríðarleg vonbrigði að sjá og heyra formann Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins skófla þessu risastóra máli út af borðinu með yfirlýsingum sínum nýverið.“

Rósa taldi„gríðarlega eftirgjöf“ hafa orðið af hálfu umhverfisráðherra „gagnvart þeim öflum sem líta á miðhálendið eingöngu sem orkugjafa út í orkunýtingar í stað verndarsjónarmiða.“ Og þrátt fyrir það telji ríkisstjórnarflokkarnir ekki tækt að afgreiða málið fyrir þinglok.

Ótrúlega dapurlegur ósigur

„Því spyr ég hæstvirtan forsætisráðherra hvort að þetta sé ekki ótrúlega dapurlegur ósigur, að ná ekki einu helsta meginmáli VG í gegn á þessu kjörtímabili,“ sagði Rósa.

Katrín sagði ræðu Rósu „hálf kúnstuga“, og sagðist vona að þingmaðurinn þekkti frumvarpið vel. Ekki hafi tekist að ljúka gestakomum fyrir þingnefnd og á annað hundrað umsagnir borist sem þyrfti að vinna úr. Málið væri af því mikla mikilvægi að vanda yrði til verka og „ ...tryggja það að við tökum vel utan um þau álitamál sem upp kunna að koma þegar um er að ræða jafnmikilvægt svæði“. Málið hafi komið seint fram m.a. vegna heimsfaraldurs og annarra „risastórra“ verkefna ríkisstjórnarinnar.

Hvorki ósigur né eftirgjöf

„Ég kalla það ekki ósigur. Ég kalla það ekki gríðarlega eftirgjöf eins og háttvirtur þingmaður kýs að kalla það svo. En mig grunar nú að þessi stóryrði háttvirts þingmanns eigi líka rætur að rekja til fyrrum veru hennar í okkar hreyfingu,“ sagði Katrín og umhverfisverndarsinnar ættu frekar að leggja kraftana saman frekar en að deila.

Stuðningurinn alger og sannur

„Hún veit mætavel að stuðningur við þetta mál er alger og sönn og heill af minni hálfu og hún ætti að vita það meira en nokkur annar,“ svaraði Rósa og ítrekaði orð sín um ósamstöðu ríkisstjórnarinnar og spurði að lokum forsætisráðherra: „Telur hún að eigi sömu flokkar að sitja í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, að þetta mál muni þá nást í gegn, á því kjörtímabili eftir fjögurra ára dapurlega meðhöndlun á þessu risastóra máli?“