Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra landsins, segir of mikið upp­nám hafi orðið í fjöl­miðlum um hugsan­legan fund sinn með Mike Pence, vara­for­seta Banda­ríkjanna. Hún segist ekki hafa neitt á móti því að hitta hann, en hún var til viðtals í Silfrinu í hádeginu.

Hefurðu eitt­hvað á móti því að hitta Mike Pence?

„Nei, ekki neitt. Ég myndi segja að sú gagn­rýni eigi ekki við nein rök að styðjast. Þess vegna kalla ég þetta hálf­gert upp­nám út af litlum sökum. Hingað kom nú Mike Pompeo fyrr á árinu og við áttum góðan fund,“ segir Katrín.

Þar hafi hún farið yfir mál­efni norður­slóða, loft­lags­mál og sér­stakt hugðar­efni sitt, kjarn­orku­af­vopnun, sem hún hafi raunar rætt við sjálfan Banda­ríkja­for­seta. „Ég hef aldrei nálgast al­þjóð­leg sam­skipti þannig að maður eigi ein­göngu að tala við þá sem eru manni sam­mála, enda myndi ég ekki tala við marga þá.“

Spurð hvort sé ein­hver þrýstingur frá Banda­ríkjunum um að hún fundi með Pence segir Katrín svo ekki vera. „Það hefur ekki verið neinn þrýstingur í þessu máli. Þess vegna upp­lifi ég það, að mér finnst þetta hálf furðu­leg við­brögð,“ segir Katrín.

Hún bendir á að hún sé að fara að tala á árs­fundi nor­rænu verka­lýðs­hreyfinganna, þar sem Ís­land fari með for­mennsku að þessu sinni. „Það er á­stæðan fyrir því að mér er boðið að koma og halda þar hálf­tíma erindi um fram­tíð vinnu­markaðins, Evrópu­sam­starf og fleiri þætti sem skipta vinnandi fólk í þessum löndum máli,“ segir Katrín.

„Það að hlusta á það hvernig um þetta er talað finnst mér eigin­lega alveg stór­merki­legt. Meira að segja fólk á öllu lit­rófi stjórn­málanna telur að þetta sé eins og að heim­sækja eitt­hvað lands­þing frí­merkja­safnara og þá spyr ég hvar þetta fólk sé statt í lifinu.“

Spurð út í stjórn­mála­skoðanir Pence tekur Katrín það fram að hún sé ekki sam­mála honum. Það breyti því ekki að við höfum sam­skipti við fólk sem við séum ekki sam­mál. Bendir hún á að hún hafi meðal annars sitið við hlið Viktors Or­ban, for­sætis­ráð­herra Ung­verja­lands.

Á­huginn á norður­slóðum komi ekki af góðu

Spurð út í aukinn á­huga Banda­ríkja­manna á Ís­landi og hernaðar­upp­byggingu í Kefla­vík segist Katrín horfa til for­mennsku Ís­lands í Norður­skauts­ráðinu. Svarið við víg­væðingu norður­slóðanna sé á­hersla á bar­áttuna við loft­lags­málin, sem kalli á sam­tal milli þjóða.

„Ég nálgast þetta ekki út frá því sem er ó­þægi­legt fyrir mig. Mér finnst það ekki skipta öllu máli. Auð­vitað er það þannig að hreyfing mín, VG, er eini stjórn­mála­flokkurinn á Ís­landi sem erein­línis með and­stöðu við At­lants­hafs­banda­lagið og varnar­samninginn á sinni stefnu­skrá,“ segir Katrín.

„Það sem við horfum á, er að við höfum á­kveðið að taka þátt í ríkis­stjórnar­sam­starfi þrátt fyrir að þetta stefnu­mál okkar fái ekki brautar­gengi,“ segir Katrín. Það hafi legið fyrir þegar VG gekk inn í ríkis­stjórnar­sam­starfið. Skoðun hennar sé ó­breytt.

Spurð hvort hún hafi á­hyggjur af fram­gangi Kín­verja og Rússa segir Katrín að hún hafi á­hyggjur af aukinni víg­væðingu sama hvaðan hún kemur. „Ég tel ekki að þetta sé leiðin að frið­sam­legum sam­skiptum. Já, mér finnst við vera í á­kveðinni aftur­för þegar kemur að frið­sam­legum sam­skiptum.“