Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun funda með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, um átök Ísraels og Palestínu og ólögmæta landtöku og mannréttindabrot Ísraels í loftárásum síðustu vikna.

„Ég mun í öllu falli nýta tækifærið nú þegar ég funda með utanríkisráðherra Bandaríkjanna á morgun og utanríkisráðherra Rússlands á fimmtudaginn og taka upp þessi mál og hvetja þessi ríki til að beita sér á alþjóðavettvangi til þess að ná fram friðsamlegri lausn á þessum málum,“ sagði forsætisráðherra á þingfundi í dag. Þá greindi hún frá því að utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarsson, átti símafund með Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs um helgina en Noregur á sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sem fundaði í gær og kallaði eftir tafarlausu vopnahléi.

Blinken og Lavrov munu hittast í Reykja­vík þann 20. maí til að taka þátt í fundi aðildar­­ríkja Norður­­skauts­ráðsins sem fram fer í Reykja­­vík dagana 19. og 20. maí. Ís­land læt­­ur þá af for­­mennsk­­u sinn­­i í ráð­­in­­u og taka Rúss­­ar við kefl­­in­­u. Sam­skipti Banda­ríkjanna og Rússa hafa verið stirð upp á síð­kastið vegna Úkraínu­deilunnar og hafa ríkin meðal annars beitt hvort annað þvingunum og hafa þau jafn­framt rekið erind­reka hvors annars úr landi.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands hittast í Reykjavík á fundi aðildarríkja Norðurskautsráðs.
Mynd/Samsett

„Innantómt hjal“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, gerðu átök Ísraels og Palestínu að umræðuefni á Alþingi í dag og fordæmdu árásir og mannréttindabrot Ísraels gegn Palestínu. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hafa 55 palestínsk börn verið drepin í loftárásum Ísraela á Gaza og tvö börn hafa látist í Ísrael eftir árásir Hamas-samtakanna. Þingmennirnir kölluðu eftir viðbrögðum forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á þingfundi í dag.

„Við eigum að takast því skýra afstöðu gegn þjóðum sem fara með hernámi yfir á aðrar þjóðir og ekki síst árásir á óbreytta borgara.“

„Aðeins samhæfður og hávær þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu getur mögulegt hnikað áformum ríkisstjórnar sem virða mannslíf að vettugi. Það þýðir að ríkisstjórnir allra landa, líka Íslands, þurfa að sýna frumkvæði og þor til að tjá sig gegn stríðsglæpum, tjá sig gegn drápi á börnum og mótmæla harðlega þjóðarmorðum,“ sagði Halldóra og benti á að afstaða þingflokks VG væru talsvert skýrari en ríkisstjórnarinnar, sem þrátt fyrir að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu, og þar með rétt Palestínu til að verja sig gegn hernámi Ísraels, kallaði eftir að báðar hliðar sýndu stillingu.

„Hvað er svoleiðis afstöðuleysi annað heldur bara fullkominn heigulsháttur? Að sama skapi hefur þingflokkur VG gefið út einhvers konar yfirlýsingu um helgina þar sem landtökustefna Ísraelsher var fordæmd, gott og vel, en málfundaæfingar þingflokks forsætisráðherra er innantómt hjal miðað við þær raunverulegu aðgerðir sem forystuflokkur í ríkisstjórn Íslands gæti sett í gang ef hann raunverulega vildi.“

Halldóra Mogensen telur ríkisstjórn Íslands sýna heigulshátt með því að grípa ekki til aðgerða vegna árása Ísraels á Gaza.
Fréttablaðið/Ernir

Þorgerður Katrín tók í sama streng.

„Við eigum að takast því skýra afstöðu gegn þjóðum sem fara með hernámi yfir á aðrar þjóðir og ekki síst árásir á óbreytta borgara eins og við erum að upplifa núna í dag á milli Ísraels og Palestínu. Líf og öryggi milljóna manna veltur á því að vopnahléi verði komið á milli Ísraels og Palestínu og við getum þrýsta á að svo verði og við getum beitt okkur víða í alþjóðasamfélaginu en við megum heldur ekki að hafa það þannig að við skilum okkur á bak við til að verða svolítið stikkfrí frá eigin hugsjónum og hugmyndafræði.“

Þorgerður Katrín vildi vita afstöðu forsætisráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Vildi Þorgerður Katrín vita hver afstaða ríkisstjórnar væri. Afstaða vinstri grænna, flokks forsætisráðherra, væri skýr en ekki afstaða ríkisstjórnar. Forsætisráðherra sagði aðgerðir Ísraels vera ólögmætar og brjóta í bága við alþjóðalag og alþjóðlegan mannúðarétt. Ísland viðurkenni sjálfstæði Palestínu og afstaða Íslands til ólögmætrar landtöku Ísraels væri algjörlega skýr.